Femínismi valið orð ársins

Mótmæli í Washington í janúar.
Mótmæli í Washington í janúar. AFP

Bandaríska orðabók­in Merriam-Web­ster hef­ur valið femínisma orð ársins vegna mikillar aukningar í leit að orðinu á vefnum.

Í tilkynningu vegna valsins kemur fram að áhugi á hugtakinu hafi aukist í kjölfar kröfugangna kvenna á árinu, nýrra sjónvarpsþátta og kvikmynda um mál sem tengjast konum og bylgju mála sem fjalla um kynferðislegt áreiti.

70% fleiri leituðu að orðinu í ár heldur en í fyrra.

Orðabókin skilgreinir femínisma sem „kenningu um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt jafnrétti kynjanna.“

Fjöldi kvenna víða um Bandaríkin fór í kröfugöngu þegar Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar. Skipuleggjendur sögðu réttindi kvenna í hættu eftir kjör Trumps.

Í febrúar var aftur bylgja í leit að femínisma þegar Kellyanne Conway, ráðgjafi Trumps, sagði að hún væri ekki femínisti. Hún sagðist einfaldlega ekki hafa neitt á móti körlum og að hún væri ekki fylgjandi fóstureyðingum.

„Orðið var á allra vörum,“ sagði Peter Sokolowski, aðstoðarritstjóri Merriam-Web­ster. Aftur varð aukning á leit að femínisma á vefnum í kjölfar #MeeToo-byltingarinnar í haust.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert