Macron gagnrýndur fyrir lúxusafmælisveislu

Emmanuel Macron sætir gagnrýni fyrir staðarval vegna fertugsafmælisveislu sinnar.
Emmanuel Macron sætir gagnrýni fyrir staðarval vegna fertugsafmælisveislu sinnar. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti bauð í dag til afmælisveislu í höll Frans fyrsta Frakklandskonungs, en Macron varð fertugur á fimmtudag. Gagnrýnendur forsetans segja val hans á veislustað gott dæmi um að hann sé úr öllum tengslum við almenning í landinu.

Macron mun eyða helginni með eiginkonu sinni Brigitte og stórfjölskyldunni í Chambord höllinni í Loire dalnum í Frakklandi að sögn franska dagblaðsins La Nouvelle Republique.

Chambord þykir dæmi um sannkallaða ævintýrahöll og er ein af þekktustu höllum Frakklands frá endurreisnartímanum.

Macron og fjölskylda munu dvelja í einum af húsunum á jarðareigninni sem höllin stendur á, en efnt er til gala kvöldverðarveislu fyrir 400 gesti í höllinni sjálfri nú í kvöld.

Greiða dvölina úr eigin vasa

Samkvæmt upplýsingum frá franska forsetaembættinu greiða Macron og eiginkona hans fyrir dvölina úr eigin vasa, en nokkrir franskir stjórnmálamenn hafa engu að síður gagnrýnt staðarvalið.

„Af hverju heldur hann upp á afmæli sitt í Chambord?“ hefur dagblaðið Le Figaro eftir vinstrimanninum Jean-Luc Melenchon.  

„Þetta er furðuleg hugmynd! Ég er lýðveldissinni þannig að allt sem snýr að konunglegum táknum geri mig reiðan. Mér finnst þetta fáránlegt,“ bætti hann við.

„Á meðan að franska þjóðin býr við skattpíningu, óöryggi og innflytjendur fagnar Macron 40 ára afmæli sínu í Chambord,“ sagði hægrisinnaði stjórnmálamaðurinn Nicolas Dupont-Aignan á Twitter.

„Tímabil líða, en fámennisstjórnin heldur áfram að vera úr tengslum við almenning.“

Chambord-höllin var byggð fyrir Frans fyrsta fyrir tæpum 500 árum. Höllin er sú stærsta í Loire-dalnum og er á lista UNESCO yfir menningaminjar. Hún er umkringd einum stærsta skóglendisgarði Evrópu og hefur fyrir vikið lengi verið í upphaldi sem veiðistaður hjá forsetum Frakklands.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert