Milljarðamæringur og kona fundust látin

Barry og Honey Sherman fundust látin á heimili sínu í …
Barry og Honey Sherman fundust látin á heimili sínu í gær. Skjáskot af vef BBC

Kanadíski milljarðamæringurinn Barry Sherman og kona hans Honey fundust látin í kjallaranum á heimili sínu í Torontó í gær. Lögregla segir aðstæður á vettvangi hafa verið grunsamlegar. BBC greinir frá

Sherman var stofnandi og stjórnarformaður lyfjarisans Apotex sem selur lækningavörur um heim allan. Hann var einn ríkasti maður Kanada og þekktur fyrir að vera mikill mannvinur.

Lögreglan í Torontó hefur ekki viljað gefa miklar upplýsingar um málið og hefur ekki staðfest að líkin sem fundust séu af Sherman-hjónunum. Vinir og embættismenn hafa þó brugðist við á samfélagsmiðlum og staðfest andlát hjónanna, en allir eru í áfalli yfir fréttunum.

„Góðir vinir mínir, Barry og Honey Sherman fundust látin. Dásamlegar manneskjur, ótrúlegir mannvinir og leiðandi í heilbrigðisgeiranum,“ skrifaði heilbrigðisráðherrann Eric Hoskins á Twitter.

Þá hefur forsætisráðherra Kanada sent fjölskyldu og vinum hjónanna samúðarkveðjur. „Sopihe og ég eru döpur yfir fréttum af skyndilegu fráfalli Barry og Honey Sherman. Við sendum fjölskyldu og vinum samúðarkveðjur, og öllum þeim sem þau snertu.“

Talsmaður lögreglu sagði að bráðaliðar hefðu verið kallaðir að húsi hjónanna rétt eftir hádegi í gærdag. „Það hvernig andlátið ber að virðist grunsamlegt og við meðhöndlum málið þannig,“ sagði lögregluþjónninn David Hopkinson. Rannsóknarlögreglumenn hafa þó gefið út að engin merki séu um innbrot.

Hjónin höfðu nýlega sett húsið sitt á sölu og var það fasteignasali sem fann lík þeirra í kjallaranum. Hann var kominn til að undirbúa opið hús sem átti að fara fram í gær.

Hjónin láta eftir sig fjögur börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert