26 farast í aurskriðum

Börn ganga framhjá rústum húsa í Barangay San Mateo Borongan, …
Börn ganga framhjá rústum húsa í Barangay San Mateo Borongan, en hitabeltisstormurinn Kai-Tak olli gífurlegri eyðileggingu er hann fór þar yfir. AFP

26 manns hið minnsta hafa farist í aurskriðum sem féllu í kjölfar þess að hitabeltisstormurinn Kai-Tak fór yfir Filippseyjar á sunnudag. 23 til viðbótar er enn saknað.

Dauðsföllin sem tilkynnt var um voru á eyjunni Biliran, en stormurinn fór líka yfir eyjarnar Samar og Leyte í gær. Þar reif hann upp rafmagnslínur í 39 bæjum og borgum, olli skemmdum á vegum og brúm að sögn almannavarna Filippseyja.

87.000 manns urðu að yfirgefa heimili sín vegna Kai –Tak.

„Alls létust 26 af völdum aurskriða í fjórum bæjum á Biliran,“ sagði Sofronio Dacillo, yfirmaður almannavarna á svæðinu.

Kai-Tak hefur nú misst töluvert af styrk sínum, þó að stormurinn nái allt að 80 km hraða í sterkustu kviðunum.

Almannavarnir hafa varað við að búast megi við fleiri flóðum og skriðum og þá eru 15.500 farþegar strandaglópar af því að ekki hefur tekist að halda uppi áætlunarferðum með ferjum á hluta svæðisins.

„Ég hef verið strandaglópur í þrjá daga og er búinn að sofa í rútunni. Núna vil ég bara komast heim til fjölskyldunnar fyrir jólin,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Eliaquin Pilapil sem var fastur í bænum Matnog.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert