Börnin efast um dánarorsök Sherman-hjónanna

Barry og Honey Sherman fundust látin á heimili sínu í …
Barry og Honey Sherman fundust látin á heimili sínu í gær. Lögregla er sögð rannsaka lát þeirra sem mögulegt morð og sjálfsvíg Skjáskot af vef BBC

Fjölskylda kanadíska milljarðamæringsins Barrys Shermans og Honey eiginkonu hans dregur í efa fréttir fjölmiðla af dularfullum dauðdaga þeirra.

Lík Sherman-hjónanna fundust á heimili þeirra í Toronto á föstudag og rannsakar lögregla lát þeirra sem mögulegan glæp. Ekki stendur þó yfir leit að neinum sem grunaður er um að hafa valdið andláti þeirra og hafa kanadískir fjölmiðlar eftir heimildamönnum innan lögreglunnar að málið sé rannsakað sem morð og sjálfsvíg.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldunni segir hins vegar að enginn nákominn hjónunum trúi slíku.

„Foreldrar okkar deildu lífsgleði og trúfestu í garð fjölskyldu sinnar og samfélagsins, sem er í fullu ósamræmi við þennan óheppilega orðróm sem fjölmiðar hafa deilt varðandi dauða þeirra,“ sagði í yfirlýsingu barna þeirra.

Kalla börnin, að sögn BBC, eftir ítarlegri og hlutlausri glæparannsókn og að fjölmiðlar hætti að greina frá dánarorsök þar til rannsókninni sé lokið.

Fasteignasali Sherman-hjónanna fann lík þeirra, en hann hafði verið að aðstoða þau við að selja hús sitt. Engin merki voru um innbrot.

Lögregla hefur tilkynnt að hún bíði nú niðurstöðu krufningar áður en næstu skref í rannsókninni verða ákveðin.

Barry Sherman, var stofnandi og stjórnarformaður lyfjarisans Apotex, sem selur …
Barry Sherman, var stofnandi og stjórnarformaður lyfjarisans Apotex, sem selur samheitalyf víða um heim. Hann var einn af ríkustu mönnum Kanada og þekktur fyrir góðgerðastarf sitt. AFP

Nokkur kanadísk dagblöð fullyrða hins vegar að þau hafi eftir rannsakendum að lögregla vinni út frá þeirri tilgátu að Sherman hafi myrt eiginkonu sinni og því næst svipt sig lífi. Sherman-hjónin skilja eftir sig fjögur uppkomin börn.

Sherman var stofnandi og stjórnarformaður lyfjarisans Apotex, sem selur samheitalyf víða um heim. Hann var einn af ríkustu mönnum Kanada og þekktur fyrir góðgerðarstarf sitt.

Margir hafa minnst hjónanna eftir að fréttir bárust af láti þeirra, m.a. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sem vottaði á Twitter fjölskyldu þeirra og vinum samúð sína og sagði alla hafa verið snortna af hugsjónum þeirra og anda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert