Fjórir nýburar létust með 90 mínútna millibili

Börnin voru öll í hitakassa á vökudeild.
Börnin voru öll í hitakassa á vökudeild. AFP

Lögreglan í Suður-Kóreu rannsakar nú dauða fjögurra nýbura sem létust með innan við 90 mínútna millibili á sjúkrahúsi í höfuðborginni Seúl. Nýburarnir voru allir í hitakassa og virðast þeir hafa fengið hjartastopp. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. BBC greinir frá.

Fjölskyldur barnanna hafa tjáð sig við fréttamiðla í Seúl og segjast hafa haft áhyggjur af heilsufari barna sinna áður en þau létust á laugardag. Börnin eru sögð hafa verið með útþaninn maga og átt í erfiðleikum með að anda. Orsök þess að börnin fengu hjartastopp hefur ekki fundist, en starfsfólk spítalans sagði lögreglu að ekkert benti til þess að um smitandi sjúkdóm væri að ræða. Börnin voru öll látin þegar lögreglu bar að garði.

Tólf önnur börn sem voru í hitakössum á sama sjúkrahúsi hafa nú annaðhvort verið útskrifuð eða flutt á annað sjúkrahús. Lögregla framkvæmdi leit á spítalanum en búist er við að niðurstöður krufningar liggi fyrir á mánudag. Þær munu væntanlega skera úr um dánarorsökina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert