Héldu úti milljón dollara furðuhlutaverkefni

Starfsmenn FBI eru sagðir hafa haldið áfram að rannsaka tilkynningar …
Starfsmenn FBI eru sagðir hafa haldið áfram að rannsaka tilkynningar um óvenjuleg loftför eða grunsamlega muni til hliðar við önnur verkefni. Af vef Wikipedia

Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon hélt úti leynilegri rannsókn á fljúgandi furðuhlutum (UFO) sem hefur kostað stofnunina milljónir dollara, að því er bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá.

BBC segir aðeins hluta starfsmanna stofnunarinnar vita af rannsókninni sem hófst árið 2007, en er sagt hafa lokið 2012.

Fjallað er um málið í New York Times sem segir skjöl tengd rannsókninni greina frá sérkennilegum loftförum sem bæði voru á miklum hraða og  sem héldu kyrru fyrir í loftinu.

Vísindamenn hafa hins vegar sínar efasemdir um málið og leggja áherslu á að þó að hlutir virðist óútskýranlegir þá sé það ekki endilega sönnun þess að líf sé á öðrum hnöttum.

Verkefnið sem gekk undir heitinu The Advanced Aerospace Threat Identification Programme, var hugarfóstur  Harry Reid, sem á þeim tíma var leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings en sem nú er kominn á eftirlaun.

„Ég hvorki skammast mín né finnst mér vandræðalegt að hafa komið þessu á. Ég gerði nokkuð sem enginn hafði áður gert,“ sagði Reid í samtali við New York Times.

Reid var áður öldungadeildarþingmaður Nevada þar sem hið dularfulla Svæði 51 er staðsett. Sagði Reid á Twitter eftir að fréttirnar bárust að rannsóknin hafi verið tilraun til að komast að sannleiknum enda sé hellingur vísbendinga sem styðji það að slík spurning sé lögð fram.

Verkefnið er sagt hafa kostað varnarmálaráðuneytið rúmar 20 milljónir dollara áður en það var lagt niður. Þó að verkefnið hafi ekki verið fjármagnað frá þeim tíma eru starfsmenn FBI sagðir hafa haldið áfram að rannsaka tilkynningar um óvenjuleg loftför eða grunsamlega muni til hliðar við önnur verkefni.

Vefurinn Politico hefur eftir fyrrverandi starfsmanni þingsins að verkefninu kunni að hafa verið komið á fót til að fylgjast með tækniframförum erlendra ríkja.

„Voru Kína eða Rússland að reyna að gera eitthvað, eða er þetta eitthvað drifafl sem við þekkjum ekki?“ hefur vefurinn eftir honum.

Fyrr á þessu ári birti bandaríska leyniþjónustan CIA milljónir skjala sem leynd hafði verið létt af, þeirra á meðal voru tilkynningar fljúgandi furðuhluti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert