Þóttist vera hjúkrunarfræðingur

AFP

Sænskur „hjúkrunarfræðingur“ á fertugsaldri hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir að hafa falsað prófskírteini um að hafa lokið námi í hjúkrun. Maðurinn hafði starfað á fjórum stórum sænskum sjúkrahúsum þegar upp komst um svikin. Greint er frá þessu á vefnum The Local og vísað í frétt dagblaðsins Västerbottens Kurirern.

Lögreglan hóf rannsókn á málinu eftir að starfsmaður á sjúkrahúsi lýsti yfir áhyggjum af þekkingarleysi mannsins á sviði hjúkrunar. Í ljós kom að maðurinn hafði sent fölsuð skilríki til yfirvalda, Socialstyrelsen, þar sem kom fram að hann hefði lokið námi í hjúkrun í Sviss.

Hann var beðinn um að taka hæfispróf en í stað þess þá sendi hann nýja falsaða pappíra þar sem fram kom að hann hefði starfað árum saman fyrir Rauða krossinn í Sviss. Í kjölfarið fékk hann skírteini frá sænskum yfirvöldum að hann væri menntaður hjúkrunarfræðingur.

Maðurinn var dæmdur í árs fangelsi í héraðsdómi ói Gautaborg fyrir fölsun og að hafa villt á sér heimildir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert