Hrottar í lífstíðarfangelsi

Talið er að um þrjár milljónir sýrlenskra flóttamanna séu í …
Talið er að um þrjár milljónir sýrlenskra flóttamanna séu í Tyrklandi. AFP

Tveir tyrkneskir karlar voru í dag dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt sýrlenska konu á flótta og tíu mánaða gamalt barn hennar. Mennirnir nauðguðu konunni og börðu hana til bana. Hún var komin tæpa níu mánuði á leið. Mennirnir kyrktu litla barnið en ofbeldið átti sér stað í Sakarya-héraði. 

Mennirnir voru fundnir sekir um að skipuleggja morð, að hafa drepið þungaða konu, kynferðislegt ofbeldi og að hafa drepið barn sem gat ekki varið sig, segir í frétt Anadolu-fréttastofunnar.

Haft er eftir eiginmanni konunnar að hann sé ósáttur við niðurstöðuna. „Þeir sem drápu konuna mína og barn á hrottalegan hátt eiga engan rétt á því að lifa áfram,“ sagði hann grátandi fyrir utan dómshúsið í morgun. 

Annar mannanna, Birol Karaca, viðurkenndi við réttarhöldin að hafa nauðgað konunni. „Ég drap hana ekki. Ég nauðgaði henni bara,“ er haft eftir honum í tyrkneska dagblaðinu Hurriyet. „Ég hef ekkert meira að segja. Þetta er vörn mín.“"

Í júlí í fyrra hafði eiginmaður konunnar samband við lögreglu í Tyrkland þar sem hann fann hvorki konu sína né barn. Tvímenningarnir voru fljótlega handteknir og viðurkenndu þeir árásina fyrir lögreglu. 

Ráðherra fjölskyldumála í Tyrklandi, Fatma Betul Sayan Kaya, fordæmdi hrottaskapinn sem einkenndi árásina en ekki hafa komið upp mörg tilvik þar sem flóttafólk frá Sýrlandi hefur verið beitt hrottalegu ofbeldi af hálfu heimamanna, segir í frétt AFP. Um þrjár milljónir flóttamanna eru í Tyrklandi. 

Mennirnir brutust inn á heimili konunnar og fóru með hana og litla drenginn hennar út í skóg og myrtu. Lík þeirra fundust í skóginum en það voru íbúar í nærliggjandi þorpi sem fundu líkin. Mennirnir unnu í sömu verksmiðju og eiginmaður konunnar. Þeir höfðu lent í rifrildi við manninn nokkrum dögum áður en þeir frömdu ódæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert