Vara Trump við að feta í fótspor Nixons

Minnisblaðið hefur verið birt á vef Bandaríkjaþings.
Minnisblaðið hefur verið birt á vef Bandaríkjaþings. AFP

Leiðtogar demókrata hafa varað Donald Trump Bandaríkjaforseta við því að nota hið umdeilda minnisblað sem birt var í gær sem tylliástæðu til að reka Robert Mueller, sem leiðir rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016, úr starfi. Segja þeir að brottrekstur á þeim forsendum gæti leitt til stjórnskipulegra þrenginga líkra þeim sem urðu í forsetatíð Nixons.

Í minnisblaðinu, sem skrifað var af starfsmönnum þingmanns í Repúblikanaflokknum, er alríkislögreglan sökuð um að hafa misbeitt valdi sínu við rannsóknir í aðdraganda kosninganna.

Trump samþykkti í gær að trúnaði yrði aflétt af minnisblaðinu og það birt á vef þingsins. Sagði hann það segja „smánarlega“ sögu um það sem væri í gangi í landinu. 

Í minnisblaðinu er því haldið fram að FBI og dómsmálaráðuneytið hafi notað órökstuddar upplýsingar, fjármagnaðar af demókrötum, til að fá heimild dómara til að njósna um mann úr kosningateymi Trumps.

Demókratar segja að tilgangur birtingar minnisblaðsins sé að grafa undan rannsókn á tengslum kosningateymis Trumps við Rússa sem sakaðir eru um afskipti af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum árið 2016.

FBI varaði við birtingu minnisblaðsins. Christopher Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar, segist ætla að verja starfsfólk sitt í kjölfar birtingarinnar. Hann heitir því að standa með því.

Frétt BBC

Frétt Sky

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert