Danir vilja banna andlitsblæjuna

Múslimskar konur með niqab. Verði frumvarpið samþykkt mun sektin fyrir …
Múslimskar konur með niqab. Verði frumvarpið samþykkt mun sektin fyrir að hylja andlit sitt nema 1.000 dönskum krónum og hækkar hún upp í 10.000 danskar krónur fyrir þá sem brjóta lögin ítrekað. AFP

Dönsk stjórnvöld greindu frá því í dag að þau hyggist taka til við að sekta fólk sem hylur andlit sitt á almannafæri. Bætist Danmörk þá í hóp ríkja eins og Frakklands sem hefur sett hömlur á að múslimskar konur klæðist búrku eða niqab.

Geta þeir sem brjóta lögin ítrekað átt von á sekt sem nemur allt að 10.000 dönskum krónum eða tæpum 170.000 íslenskum. Ekki var gefið upp hvenær frumvarp þessa efnis verði tekið fyrir í þinginu.

Mjög skiptar skoðanir eru í mörgum Evrópuríkjum um slæður á borð við þá sem notaðar eru með búrku eða niqab og sem hylja að stærstum hlut andlit þess sem þeim klæðist. Þeir sem eru þeim fylgjandi segja það andstætt trúfrelsi að banna slíkan klæðnað á meðan aðrir segja fatnaðinn táknmynd kúgunar kvenna.

„Það er fullkomlega ósamræmanlegt dönskum gildum eða virðingu fyrir samborgurum manns að hylja andlitið þegar fólk hittist á almannafæri,“ sagði Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra Dana, í samtali við Reuters.

„Með banninu leggjum við línurnar og sýnum að hér í Danmörku sýnum við hvert öðru traust og virðingu með því að sýna andlit okkar þegar við hittumst,“ sagði hann.

Frumvarpið er lagt fram af danska Þjóðarflokkinum, en er sagt njóta stuðnings stjórnarflokkanna. Þá hefur Jafnaðarmannaflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, gefið til kynna að hann styðji í grunninn bann við fatnaði á borð við búrkuna.

Samkvæmt frumvarpinu nemur sektin fyrir að hylja andlit sitt 1.000 dönskum krónum og hækkar hún upp í 10.000 danskar krónur fyrir þá sem brjóta lögin ítrekað. Þeir sem klæðast grímubúningum á Hrekkjavökunni og lukkudýr íþróttafélaga verða þó undanþegin banninu.

Stjórnvöld í Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Búlgaríu og í Bæjaralandi í Þýskalandi hafa þegar sett hömlur á notkun andlitsblæju á almannafæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert