Loðnir mega ekki bjóða sig fram

Angus er repúblikani að sögn eigandans.
Angus er repúblikani að sögn eigandans. Skjáskot

Yfirvöld í Kansas hafa stigið á bremsuna og bannað að hundur fái að bjóða sig fram sem ríkisstjóra. 

Sjónvarpsstöðin KWCH-TV sagði frá því um helgina að Terran Woolley, íbúi í Hutchinson, hefði ákveðið að skila inn gögnum fyrir hönd hundsins síns til að staðfesta framboð hans til ríkisstjóra. Hundurinn er þriggja ára og svarar (yfirleitt) nafninu Angus.

Þetta ákvað Woolley að gera eftir að hafa heyrt að sex unglingar hefðu þegar tilkynnt um framboð sitt. Unglingarnir eru að notfæra sér glufu í kosningalöggjöfinni en þar er hvergi að finna takmörk á aldri þeirra sem bjóða sig fram. Þessu stendur hins vegar til að breyta að afloknum kosningunum í sumar. 

Angus er af kyni veiðihunda og Woolley komst að því að hann væri repúblikani. Hann lýstir Angusi sem umhyggjusömum einstaklingi sem sé umhugað um velferð mannkyns og allra skepna, fyrir utan reyndar íkorna. 

Í frétt AP-fréttastofunnar hefur það nú fengist staðfest frá stjórnvöldum að Angus geti ekki boðið sig fram og það eigi við aðra af hans tegund einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert