Elska þeir byssur meira en börn?

Rachelle Borges, nemandi við Marjory Stoneman Douglas-framhaldskólann, situr við kerti …
Rachelle Borges, nemandi við Marjory Stoneman Douglas-framhaldskólann, situr við kerti sem raðað hefur verið í almenningsgarði í Parkland til minningar um fórnarlömb árásarinnar. AFP

„Ég er bara framhaldskólanemi og þykist ekki hafa öll svörin. Engu að síður, jafnvel í minni stöðu, þá get ég séð hina örvæntingarfullu þörf á breytingum - breytingum sem byrja á því að fólk mæti á kjörstað og kjósi ekki þá sem eru í rassvasanum á skotvopnasinnum.“

Þetta skrifar hinn ungi Cameron Kasky í pistli á vef CNN. Kasky er nemandi í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Flórída þar sem sautján voru felldir og fjórtán særðir í skotárás á miðvikudag. Hann faldi sig í skólastofu milli vonar og ótta í klukkustund á meðan Nikolas Cruz, fyrrverandi skólabróðir hans, gekk um með hríðskotariffil og stráfelldi ungmenni sem á vegi hans urðu. Kasky líkt og fjöldi annarra segist vera kominn með nóg. Hann segir sína kynslóð ekki munu samþykkja þetta. „Við getum ekki hunsað umræðuna um byssueign þegar svona harmleikur á sér stað. Svo ég bið - nei ég krefst þess - að við gerum eitthvað í málinu nú þegar.“

Í aðsendri grein á vef sama fjölmiðils spyr bandaríska ljóðskáldið Tess Taylor: „Elskum við byssurnar okkar meira en börnin okkar?“

Cameron Kasky beið ásamt fötluðum bróður sínum milli vonar og …
Cameron Kasky beið ásamt fötluðum bróður sínum milli vonar og ótta á meðan árásin í skólanum var í gangi. Skilaboð hans til bandarískra kjósenda eru skýr: Ekki kjósa stjórnmálamenn sem studdir eru af þrýstihópum skotvopnaeigenda.

Nikolas Cruz braust ekki inn í læstan skáp og stal byssu. Hann keypti ekki byssuna sem hann notaði á svörtum markaði. Hann hafði öll tilskilin leyfi er hann keypti hríðskotariffil á síðasta ári, þá átján ára gamall.

Skotárásin í Sandy Hook-grunnskólanum í Connecticut árið 2012, þar sem tuttugu týndu lífi, skók Bandaríkin og í raun alla heimsbyggðina, svo óhugnanleg þótti hún. Síðan þá hafa verið gerðar að minnsta kosti 239 skotárásir í skólum í landinu og í þeim hafa 438 verið skotnir, þar af 138 til bana, að því er fram kemur í grein New York Times. Árásirnar hafa verið framkvæmdar á íþróttaviðburðum skóla, á bílastæðum við þá, í mötuneytum og skólastofum. Sextán þeirra eru skilgreindar sem fjöldaárásir þar sem fjórir eða fleiri voru skotnir. Að meðaltali hafa verið gerðar fimm skotárásir í skólum í Bandaríkjunum í hverjum mánuði frá voðaverkinu í Sandy Hook.

Fá byssurnar á heimilum sínum

Rannsóknir sýna að í flestum tilfellum séu byssur sem finnast á heimilum árásarmannanna notaðar til árásanna. Í rannsókn sem New York Times vísar til og gerð var árið 2000 kemur fram að talið sé að 22 milljónir bandarískra barna búi á heimilum þar sem byssur er að finna. Aðeins 54% byssueigenda sem eru með börn yngri en átján ára á heimilinu segjast geyma þær í læstum skápum, samkvæmt niðurstöðum árs gamallar rannsóknar. 

Ummæli sem David Jolly, fyrrverandi þingmanns repúblikana, lét falla fljótlega eftir árásina í Flórída, hafa vakið athygli. „Það er margt í gangi, pólitískt séð, sem er ekki á allra vitorði,“ sagði hann í viðtali við CNN. „En við skulum vera grimmilega hreinskilin um það sem við þó vitum, og ég segi þetta verandi repúblikani: Repúblikanar munu aldrei gera neitt í byssueftirliti (gun control).“

Nóg komið. Fjöldaganga í Parkland í Flórída þar sem skotárásin …
Nóg komið. Fjöldaganga í Parkland í Flórída þar sem skotárásin á miðvikudag var framin. Fólkið krefst aðgerða. AFP

Þó að þarna sé fast að orði kveðið er ýmislegt sem styður þessa fullyrðingu og þá helst sú staðreynd að umræða um byssueign hefur í grundvallaratriðum lítið breyst á síðustu árum, þrátt fyrir allar þessar mannskæðu árásir í skólum þar sem tugir barna hafa fallið. Þannig hafa til dæmis tæki sem hraða á skothríð úr hálfsjálfvirkum vopnum (bump stocks) ekki enn verið bönnuð líkt og almenn krafa var gerð um í kjölfar fjöldaárásarinnar í Las Vegas í fyrra. Samkvæmt könnun sem gerð var meðal almennings um viku eftir þá árás kom í ljós að 73% Bandaríkjamanna studdu bann slíkra tækja og að um 60% þeirra, hærra hlutfall en nokkru sinni fyrr, sagðist styðja hertari lög um byssueign.

Þá hefur verið reynt að beina sjónum að öðrum „sökudólgi“: Alríkislögreglunni, FBI, líkt og bent er á í leiðara Washington Post. Henni barst í fyrra ábending um myndskeið af Nikolas Cruz sem birtist á YouTube. Þar hafði hann í hótunum en ekki tókst að bera kennsl á hann á þeim tíma.

Í ritstjórnargrein Washington Post er ennfremur bent á að á sama tíma og íhaldsmenn segjast styðja frekara eftirlit og bakgrunnsskoðanir á fólki sem kaupir byssur, þá telji þeir slíkt eftirlit ekki koma í veg fyrir fjöldaárásir. 

Aðgerðasinninn og frumkvöðullinn Michael Skolnik er einn þeirra sem hefur tjáð sig um þörfina á hertari reglum um skotvopnaeign. „Einn maður með sprengju í skónum reyndi að sprengja flugvél í loft upp og nú þurfum við öll að fara úr skónum okkar,“ sagði hann um þá þversögn sem að hans mati fellst í viðbrögðum við hryðjuverkum annars vegar og skólaárásum hins vegar. Vísar hann þar til máls sem kom upp árið 2001. „En 1606 fjöldaskotárásir frá Sandy Hook og þingið hefur EKKERT gert.“

Stjórnmálafræðingurinn Brian Klaas, sem starfar við London School of Economics, tekur í sama streng og segir: „Eftir 11. september voru hurðir að flugstjórnarklefum styrktar og öryggi hert. Við sögðum ekki að það eina sem myndi stoppa flugræningja væri góður maður um borð í flugvél.“

Í kjölfar hryðjuverkanna árið 2001 fóru Bandaríkjamenn svo í stríð í Afganistan sem enn sér ekki fyrir endann á og hefur kostað hundruð milljarða dala, eins og blaðamaður The Atlantic bendir á. Þá hafi verið settar á stofn nefndir, ráð og opinberar stofnanir til að tækla hryðjuverkaógnina innanlands sem utan og gríðarlegum fjármunum varið til þess. 

„Og ef þú telur alla þá sem fallið hafa í hryðjuverkum í Bandaríkjunum eftir árásina 11. september þá er það aðeins brot af þeim Bandaríkjamönnum sem fallið hafa í fjöldaskotárásum,“ skrifar blaðamaðurinn Uri Friedman og segir því erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að „með tilliti til aðgerða og fjárfestinga þá er feiknarleg gjá á milli þess hvernig bandarísk stjórnvöld hafa forgangsraðað til að stöðva eina tegund ofbeldis fremur en aðra.“

Ungmenni hugga hvort annað við minningarathöfn um fórnarlömb árásarinnar í …
Ungmenni hugga hvort annað við minningarathöfn um fórnarlömb árásarinnar í Parkland í Flórída. AFP

 Fyrstu viðbrögð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við skotárásinni í framhaldsskólanum í Flórída voru þessi: „Við erum staðráðin í að vinna með stjórnvöldum á landsvísu og hverjum stað til að hjálpa okkur að tryggja öryggi í skólunum okkar og taka á hinu erfiða viðfangsefni sem geðræn heilsa er,“ sagði hann og vísaði væntanlega til þess að Cruz hafði verið í meðferð vegna þunglyndis. „Það er ekki nóg að við förum bara í aðgerðir sem láta okkur líða eins og við séum að leggja okkar af mörkum. Við verðum raunverulega að leggja okkar af mörkum.“

Þetta túlkar Jonathan Allen, fréttaskýrandi hjá NBC-sjónvarpsstöðinni, sem huggunarorð til skotvopnaeigenda. Það sem Trump hafi raunverulega veri að segja væri: „Byssurnar ykkar eru öruggar.“

Larry Pratt, framkvæmdastjóri sambands skotvopnaeigenda, túlkar orð forsetans með svipuðum hætti. Hann segir þessi ummæli Trumps uppörvandi, þ.e. að hann ætli ekki að fylgja þeim sem vilja afnema þann rétt sem Bandaríkjamenn hafa til að bera byssur samkvæmt stjórnarskránni. „[...] hann sagði ekki sömu hluti og Hillary Clinton hefði sagt ef hún hefði verið forseti eða brást við með sama hætti og Barack Obama gerði við aðstæður sem þessar.“

Maður miðar AR-15 riffli, sambærilegum þeim og Nikolas Cruz notaði …
Maður miðar AR-15 riffli, sambærilegum þeim og Nikolas Cruz notaði til að fremja voðaverkin. AFP

Í fréttaskýringu Allens kemur fram að Trump hafi meiri tengsl við skotvopnaeigendur en nokkur annar forseti Bandaríkjanna hingað til. 62% þeirra kusu hann sem forseta árið 2016. Í apríl í fyrra lofaði hann forsvarsmönnum samtaka þeirra, National Rifle Association, að hann myndi „aldrei nokkurn tímann fótum troða rétt almennings til að eiga og bera vopn“.

„Ímyndaðu þér líkin“

 Ljóðskáldið Tess Taylor segist hafa búið Evrópu um tíma með son sinn. Á þeim tíma hafi hún fundið hvað útlendingar eru hissa á þeirri staðreynd að bandarískir foreldrar þurfi raunverulega að óttast að skotárásir séu gerðar í skólum barna þeirra. „Ég hef lagt mig fram við að reyna að skilja hvað býr í hjörtum fólks sem „býðst til að biðja“ þegar enn eitt fjöldamorðið er afstaðið en segja „ekki tímabært“ að fræðast um skynsamlegar reglur um skotvopnaeign,“ skrifar hún.

Samanburður við önnur lönd sé sláandi. 87% barna sem skotin eru til bana í 23 ríkustu löndum heims séu bandarísk. „Taktu þér tíma til að anda að þér þessari staðreynd. Ímyndaðu þér öll líkin, nefin, augnhárin og vonina sem þau höfðu.“

Hún segist ekki sjá fyrir sér að byssur verði með öllu bannaðar. „En ég get ímyndað mér Bandaríkin samt sem áður sem stað þar sem við látum eins og líf barna okkar séu meira virði en byssurnar okkar og stað þar sem við ákveðum að við ætlum ekki að sætta okkur við að lifa með þessum ofbeldisfaraldri.“

Sautján englar í minningu þeirra sem féllu í skotárásinni.
Sautján englar í minningu þeirra sem féllu í skotárásinni. AFP

Cameron Kasky fór í skólann á miðvikudag og bjóst við dásamlegum degi. Er náminu var lokið þann daginn fór hann inn í skólastofu fatlaðra nemenda skólans til að sækja bróður sinn. Þá dundu ósköpin yfir. Skothljóð heyrðust. Nemendurnir vissu ekki hvort að sá næsti sem kæmi inn í stofuna væri árásarmaðurinn eða lögreglan að segja þeim að hættan væri liðin hjá.

Hann hvetur fólk til að kjósa ekki þá stjórnmálamenn sem studdir eru af þrýstihópum um skotvopnaeign. „Gerið það fyrir mig. Gerið það fyrir skólasystkini mín. Við getum ekki kosið en þið getið það. Svo látið atkvæði ykkar skipta máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert