Banna dísilbíla í miðborg Rómar

AFP

Bannað verður að aka dísilknúnum bifreiðum í miðborg Rómar frá árinu 2024. Um er að ræða aðgerðir borgaryfirvalda til að sporna við mengun í borginni, segir borgarstjórinn. 

Virginia Raggi, sem er félagi í popúlistaflokknum Fimm stjörnu hreyfingunni (M5S) lagði þetta til á ráðstefnu sem hún sat í Mexíkó nýverið. Um ráðstefnu stjórnmálakvenna var að ræða og umræðuefnið hvernig hægt væri að berjast gegn loftlagsbreytingum.

Undanfarin ár hefur mjög dregið úr notkun dísil sem eldsneytis á bifreiðar í Evrópu og bílaframleiðendur eru undir miklum þrýstingi um að hætta framleiðslu dísilbíla og snúa sér frekar að rafmagns- og bensínbílum.

Fyrir tveimur dögum greindi Financial Times frá því að ítalsk/bandaríski bílaframleiðandinn Fiat Chrysler ætli að hætta framleiðslu dísilfólksbíla árið 2022. Ástæðan er samdráttur í eftirspurn og aukinn kostnaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert