„Mér þykir það leitt elskan“

Kona frá Venesúela gefur barni sínu að drekka í hengirúmi …
Kona frá Venesúela gefur barni sínu að drekka í hengirúmi í skýli flóttamanna í Boa Vista í Brasilíu. Þangað til lands hafa þúsundir þeirra flúið. AFP

Á hverjum degi flýja þúsundir Venesúelamanna land sitt. Undanfarin tvö ár hefur um milljón þeirra flúið land og þar af 250 þúsund til nágrannalandsins Kólumbíu síðan í ágúst. Þangað koma nú um 3.000 flóttamenn á hverjum degi. Fólksflóttinn er einn sá mesti sem um getur í sögu Rómönsku-Ameríku.

Ástandinu hefur verið líkt við það er Sýrlendingar hófu að flýja til Vestur-Evrópu árið 2015. Og líkt og þá hafa löndin sem fólk nú flýr í örvæntingu sinni til gripið til þess ráðs að reyna að stöðva strauminn. Þúsundir hermanna hafa verið kvaddir að landamærunum í þeim tilgangi. Í síðasta mánuði ákváðu stjórnvöld í Kólumbíu svo að stöðva útgáfu tímabundinna dvalarleyfa til Venesúelamanna. Í kjölfarið fylgdu aðgerðir lögreglu sem miða að því að hafa uppi á þeim og vísa þeim aftur til heimalandsins. 

 „Hvað heitir þú?“ spyr landamæravörður unga, granna konu í almenningsgarði í kólumbískri borg.  

„Andie,“ svarar hún veikri röddu. 

„Sýndu mér pappírana,“ segir hann.

„Ég hef enga,“ svarar hún.

„Hvaðan ertu?“ spyr vörðurinn.

„Ég er frá Venesúela. Gerðu það, ég get ekki. Ég get ekki farið til baka,“ segir Andie og berst við tárin en saga hennar er sögð í fréttaskýringu Washington Post.

Áður tekið við fjölda flóttamanna

Yfirvöld í Kólumbíu eru ekki óvön því að taka á móti flóttamönnum. Þangað komu margir Kúbverjar er Fidel Castro komst þar til valda árið 1959. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar flúðu svo margir íbúar El Salvador borgarastríðið í landinu til Kólumbíu.

Engu að síður er ástandið nú ólíkt því sem Kólumbíumenn eiga að þekkja. 

Er Hugo Chavez varð forseti Venesúela árið 1999 flutti margt yfirstéttarfólk úr landi. En ástandið nú er allt annars eðlis. Aldrei hafa fleiri flúið þangað á jafn stuttum tíma. 

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Efnahagsástandið í Venesúela hefur versnað hratt síðustu ár. Nú er svo komið að óðaverðbólga geisar og viðvarandi skortur er orðinn á nauðsynjavörum. Stjórnvöld í landinu undir stjórn eftirmanns Chavez, Nicolás Maduro, hafa gengið hart fram gegn mótmælendum og pólitískum andstæðingum sínum. Þau hafa fangelsað fjölda þeirra og eru jafnframt sökuð um að beita þá pyntingum. 

Það eru ekki aðeins almennir borgarar sem flýja yfir hin rúmlega 2.000 kílómetra löngu landamæri að Kólumbíu. Þar yfir reyna einnig eiturlyfja-  og olíusmyglarar að komast auk  skæruliða. Oftsinnis kemur því til harðra og stundum mannskæðra átaka á landamærunum.

 Safnast saman í svefnbæ

Margir freista þess einnig að flýja til Brasilíu. Í þeim hópi eru Manuel og fjölskylda hans. Þau hjónin hósta stöðugt en þau eru engu að síður hamingjusöm. Að minnsta kosti er barnið þetta ekki lengur veikt af mislingum. 

Þau flúðu Venesúela fyrir nokkrum dögum. Nú halda þau til ásamt hundruðum landa sinna í bænum Boa Vista í Brasilíu. Flóttafólkið hefur gjörbreytt samfélaginu í svefnbænum í Roraima-héraði.

Í fyrra var opnað neyðarskýli fyrir það í íþróttasal en fljótt varð ljóst að það dugði engan veginn. Venesúelamenn grípa hvert tækifæri sem þeir gefa til að komast frá landi sínu. Þeir fylla því almenningsgarða og torg bæjarins. 

Barn leikur sér við skýli flóttamanna frá Venesúela í Boa …
Barn leikur sér við skýli flóttamanna frá Venesúela í Boa Vista í Brasilíu. Kofar flóttafólksins eru margir hverjir úr pappa. AFP

Í íþróttahúsinu hefur verið komið upp hengirúmum. Einnig í litlum kofum, sumum úr pappa, í nágrenninu. Þeir teljast heppnir sem fá dýnur til að hvíla lúin bein á. 

Það er gert ráð fyrir 180 plássum en flóttamennirnir eru nú orðnir um 600. Talið er að um 40 þúsund Venesúelamenn séu í Roraima-héraði.

Flestir koma þeir frá austurhluta Venesúela. Þeir í vesturhlutanum flýja til Kólumbíu. 

Sofa í pappakössum

Inni í íþróttasalnum er reykjarmökkur. Þar er verið að elda. Flóttafólkið fær hrísgrjón og grænmeti og þeir sem hafa ekki efni á að kaupa sér sjálfir mat fá hann gefins hjá góðgerðarsamtökum. 

 Katiuska er rúmlega fertug. Hún segir matinn nær óætan. Hún flúði Venesúela fyrir fjórum mánuðum ásamt eiginmanni sínum og tveimur sonum. Tilgangurinn var að fá tækifæri til betra lífs. Í Brasilíu segist hún ekki njóta lífsins en lifa af. 

Barn frá Venesúela að leik á torgi smábæjarins Boa Vista …
Barn frá Venesúela að leik á torgi smábæjarins Boa Vista í Brasilíu. Þangað hafa Venesúelamenn flúið í hundruða vís. AFP

Þau sofa í pappakössum í skjóli trjáa á nóttinni. Þau teljast heppin. Þetta er góður staður til að leita skjóls fyrir hitanum sem getur orðið yfir 36°C. En nú vofir regntímabilið yfir. Hættan á smitsjúkdómum mun aukast samhliða. Þetta óttast yfirlæknirinn Raimundo de Sousa. „Ástandið á Venesúelamönnunum versnar sífellt í þessum skýlum því þetta eru eru ekki heilsusamlegar aðstæður og ýta undir útbreiðslu smitsjúkdóma.“

Fólkið reynir að slá á létta strengi. Ungir menn sitja við varðeld og hita kaffi. Þeir sjá hænu hlaupa um og segja að hún sé heimilislaus eins og þeir.

 „Þessi hæna er aðeins á lífi því að hún er ekki í Venesúela,“ segir hinn nítján ára Luis. Í Venesúela er engan mat að fá. Hæna fengi ekki að lifa daginn. 

Nicolas Maduro forseti Venesúela.
Nicolas Maduro forseti Venesúela. AFP

Monica Becker er rúmlega þrítug. Hún flúði frá strandbænum Puerto La Cruz. Hún hefur því ferðast um 1.000 kílómetra leið til Boa Vista með syni sína tvo. Hún varð fljótt uppiskroppa með peninga á ferðalaginu. Er hún kom að landamærunum þurfti hún að fá aðstoð frá kirkjunnar fólki til að komast á leiðarenda. 

Hún segist þakklát fyrir það litla sem flóttafólkinu er boðið upp á. Klósettin mættu vera fleiri, segir hún. Þau eru aðeins tvö fyrir allan hópinn. „Ég vildi ekki að börnin mín myndu svelta í hel, þess vegna kom ég hingað.“

Kosningum ítrekað frestað

Til stóð að halda forsetakosningar í Venesúela þann 22. apríl. Stjórnarandstaðan sagðist ekki ætla að taka þátt nema að það yrði tryggt með öllum ráðum að þær færu heiðarlega fram og að eftirlit yrði haft með því. Nicolas Maduro, sem sækist eftir endurkjöri til næstu sex ára, sagði að kosningarnar myndu fara fram „með eða án stjórnarandstöðunnar“.

Núi hefur hins vegar verið ákveðið að fresta þeim til 20. maí. Þann sama dag munu sveitarstjórnarkosningar fara fram. 

Mótmæli gegn forsetanum Nicolas Maduro voru mjög hörð á síðasta …
Mótmæli gegn forsetanum Nicolas Maduro voru mjög hörð á síðasta ári. Oft kom til átaka milli lögreglunnar og mótmælenda. AFP

Helstu stjórnarandstæðingum er bannað að taka þátt í kosningunum. Sex hafa nú tilkynnt um forsetaframboð, m.a. Henri Falcon. Hann var áður í sósíalistaflokki Maduros, hefur verið ríkisstjóri og er fyrrverandi hershöfðingi. Í samkomulagi sem einhverjir stjórnarandstöðuflokkar og flokkur Maduros hafa gert verður framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, boðið að senda eftirlitsnefnd til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Þá hefur ríkisstjórn Maduros einnig fallist á að framlengja frest Venesúelamanna sem ekki búa lengur í landinu til að skrá sig á kjörskrána. 

Falcon og flokkur hans eiga aðild að bandalagi stjórnarandstöðuflokka sem kallast Hringborð lýðræðisins (Democratic Union Roundtable, MUD). Bandalagið er margklofið og samstaðan því ekki algjör. Falcon er ekki litríkasti stjórnmálamaður sögunnar, svo mikið er víst. Hann er til dæmis ekki sagður sérstakur ræðumaður og meiri verkstjóri en hugsjónamaður. Þá er flokkabandalagið langt í frá ánægt með að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram.

En kannski er verkstjórn það helsta sem þarf til að koma Venesúelamönnum út úr hinni gríðarlegu kreppu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að verðbólga í landinu verði 13.000% í ár. Verkefnið er því ærið. 

Henri Falcon er ekki litríkasti stjórnmálaforingi sögunnar. Hann hefur boðið …
Henri Falcon er ekki litríkasti stjórnmálaforingi sögunnar. Hann hefur boðið sig fram til embættis forseta Venesúela. AFP

MUD-bandalagið óttast enn að kosningarnar verði spilltar og hafa hvatt Falcon til að hætta við framboðið. Hann og Framfaraflokkur hans (Avanzada Progresistagekk án bandalagsins til samninga við ríkisstjórnina um dagsetningu og framkvæmd kosninganna og það fór fyrir brjóstið á mörgum hans bandamönnum hingað til. 

Með forskot samkvæmt könnunum

Kannanir einkafyrirtækisins Instituto Venezolano de Analisis de Datos sýna að Falcon nýtur 24% fylgis á meðan Maduro hefur stuðning um 18% kjósenda. Þetta er þó aðeins sagt segja hálfa söguna. Stjórnmálaskýrendur minna á að Maduro hafi mikla kosningamaskínu Sósíalistaflokks síns á bak við sig. Í raun allt stjórnkerfi landsins. 

Venesúelamenn og Kólumbíumenn fallast í faðma á viðburði í San …
Venesúelamenn og Kólumbíumenn fallast í faðma á viðburði í San Antonio del Tachira í Venesúela, skammt frá landamærunum að Kólumbíu. Boðskapur viðburðarins var vinátta og samkennd. AFP

Kosningarnar áttu í fyrstu að fara fram í desember og hafa því dregist í hálft ár. Á meðan á hinni langdregnu  kosningabaráttun stendur búa margir í landinu við hungurmörk og mjög skert lífsgæði að flestu leyti. Og líkt og víðar í heiminum kemur þetta fólk á flótta sífellt oftar að lokuðum dyrum í öðrum löndum. 

Aftur yfir brúna

Hin unga Andie, sem hafði komist yfir landamærin að Kólumbíu, var handtekin, segir í fréttaskýringu Washington Post. Þannig fer eftirlitið með flóttafólki frá Venesúela nú fram þar í landi. Hún og hópur annarra flóttamanna er svo leystur úr haldi og færður út á brúna sem þau gengu yfir til að komast frá Venesúela. Eitt af öðru gengur fólkið aftur yfir landamærin og til hins aðþrengda heimalands. Andie stendur loks ein eftir á brúnni. Lögreglumennirnir fylgjast með henni.

„Þú verður að fara,“ segir lögreglukona við hana. 

„Ég get það ekki,“ segir Andie og rödd hennar brestur. „Gerðu það, ég er ólétt. Við munum ekki komast af þarna.“

Lögreglukonan þegir um hríð.

„Mér þykir það leitt elskan en þú verður að snúa til baka,“ segir hún loks og Andie kinkar kolli og leggur svo af stað yfir brúna. 

Greinin er byggð á fréttum Washington Post, New York Times, AFP o.fl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert