Þjóðaröryggisráðgjafinn á útleið?

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að reka hershöfðingjann H.R. McMaster úr embætti þjóðaröryggisráðgjafa og er að skoða mögulega arftaka hans samkvæmt frétt bandaríska dagblaðsins Washington Post. Blaðið vísar í fimm ónafngreinda heimildarmenn.

Fram kemur í fréttinni að Trump hafi aldrei náð vel saman við McMaster. Forsetinn ætli hins vegar að taka sér tíma í að framkvæma ákvörðunina þar sem hann vilji bæði forðast það að niðurlægja hershöfðingjann og finna góðan eftirmann samkvæmt heimildarmönnunum.

McMaster sagði í síðasta mánuði að óumdeilanlegt væri að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016 og í nóvember var fullyrt að þjóðaröryggisráðgjafinn hefði kallað Trump „fábjána“ og „fífl“ í einkasamkvæmi í júlí.

Hershöfðinginn var ennfremur sagður hafa gagnrýnt ýmsa háttsetta ráðgjafa Trumps, sagt að forsetinn hefði gáfnafar á við „leikskólakrakka“ og að hann  skorti skynsemi til þess að skilja þau mál sem lægju fyrir þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna.

Fyrr í vikunni rak Trump Rex Tillerson úr embætti utanríkisráðherra en samkvæmt Washington Post má búast við frekari uppstokkunum háttsettra embættismanna. Titringur er sagður á meðal embættismanna í Hvíta húsinu vegna frekari ákvarðana forsetans.

H. R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump.
H. R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert