Fékk 20 ára dóm fyrir þrælahald

Þó að þrælahald hafi verið bannað með lögum í Máritaníu …
Þó að þrælahald hafi verið bannað með lögum í Máritaníu frá því 1981, var það ekki fyrr en 2015 sem það var gert að refsiverðu athæfi. Kort/Google

Tveir þrælahaldarar í Máritaníu hafa verið dæmdir í 10 og 20 ára fangelsi. Eru það þyngstu dómar sem veittir hafa verið fyrir þrælaeign í þessu Vestur-Afríkuríki, þar sem þrælahald er ólöglegt en engu að síður útbreitt og dómar vegna þess fátíðir.

Þrælahald var bannað með lögum ári 1981. 1% þjóðarinnar býr engu að síður enn í fjötrum að því er BBC hefur eftir mannréttindasamtökum, en talið er að um 43.000 manns séu enn þrælar á Máritaníu.

Eru vissir ættflokkar oft hnepptir í þrældóm og þeim gert að starfa sem húsþrælar hjá þeim íbúum Máritaníu sem eru ljósari á hörund.

Segja mannréttindasamtök að dómstólar í landinu hafi hneppt fleira baráttufólk gegn þrælahaldi í fangelsi en þrælahaldara.

Það var dómstóll í bænum Nouadhibou sem dæmdi Hamoudi Ould Saleck til 20 ára fangelsisvistar fyrir að hneppa fjögurra manna fjölskyldu, þar af tvö börn, í þrældóm. Faðir Salecks, sem lést áður en réttarhöldunum lauk, hlaut sama dóm að sér látnum.

Þá var kona að nafni Revea Mint Mohamed dæmd í 10 ára fangelsi fyrir að halda þrjá þræla. Einn þrælanna, 29 ára kona, hafði verið þræll hjá Mohamed frá því hún var lítil stelpa.

Í báðum málum voru það fyrrverandi þrælar sem lögðu fram ákærurnar.

Þó að þrælahald hafi verið bannað með lögum í Máritaníu frá því 1981, var það ekki fyrr en 2015 sem það var gert að refsiverðu athæfi og í fyrri dómum hafa þrælahaldarar hlotið 2-5 ára dóma.

Mannréttindasamtökin Amnesty International fögnuðu dómsúrskurðinum og sögðu dómstóla í landinu nú hafa til meðferðar 47 kærur sem beinist gegn 53 einstaklingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert