Skotinn í garðinum hjá ömmu sinni

Sequita Thompson, amma Stephons Clarks, í öngum sínum á blaðamannafundi. …
Sequita Thompson, amma Stephons Clarks, í öngum sínum á blaðamannafundi. Með henni er lögmaðurinn Ben Crump. AFP

Hann stóð í garðinum hjá ömmu sinni þegar ókunnugir menn komu skyndilega út úr myrkrinu og hrópuðu: „Sýndu okkur hendurnar“ og „byssa“ áður en þeir hófu skothríð, innan við tuttugu sekúndum eftir að þeir birtust. Í fimm mínútur eftir að skothríðinni lauk stóðu mennirnir, sem reyndust heyra til lögreglunni í Sacramento í Bandaríkjunum, grafkyrrir og í stað þess að veita hinum fallna aðstoð héldu þeir áfram að skipa honum að sýna á sér hendurnar. Sá grunaði lá hreyfingarlaus á jörðinni og veitti enga mótspyrnu þegar lífvana líkami hans var færður í handjárn. Skotin tuttugu, sem hleypt var af, höfðu nægt til að verða honum að fjörtjóni. Ekkert vopn fannst á hinum látna – aðeins farsími, sem hann hafði verið með í hendinni. Því næst skrúfuðu lögreglumennirnir fyrir hljóðið á myndavélunum sem þeir báru á sér.

Stephon Clark var aðeins 22 ára þegar hann lést, eftir samskipti sín við lögreglu, 18. mars síðastliðinn. Hann lætur eftir sig tvo syni, eins og þriggja ára.

Stephon Clark ásamt sonum sínum.
Stephon Clark ásamt sonum sínum.

„Þeir skutu hann eins og hund. Þetta var aftaka,“ sagði bróðir hins látna, Stevante Clark, í samtali við breska blaðið The Guardian í vikunni. Að því búnu stappaði hann fætinum tuttugu sinnum niður; einu sinni fyrir hvert skot sem lögreglumennirnir hleyptu af. „Tuttugu sinnum. Það er eins og að stíga á kakkalakka … og svo aftur og aftur og aftur …“
Lögreglan hefur sagt að lögreglumennirnir hafi verið að bregðast við ábendingu um að einhver væri að brjótast inn í bíla þegar þeir gengu fram á Stephon Clark í garðinum.

Skreið inn í svefnherbergi

Amma Clarks, Sequita Thompson, var heima þegar hún heyrði skothvellina; greip sjö ára gamalt barnabarn sitt og skreið inni í svefnherbergi, þar sem þær langmæðgur földu sig, að sögn The Guardian.

Bróðirinn, Stevante Clark, hefur verið áberandi í fjölmiðlum eftir að bróðir hans lést en atvikið hefur vakið mikla reiði vestra. „Ég ætti ekki að þurfa að verja bróður minn. Þvert á móti ættu þeir að þurfa að sanna sakleysi sitt,“ sagði hann og á þar við lögreglumennina. „Ég er uppgefinn. Ég hata þetta. Hata líf mitt.“

Andlát Stephons Clarks er olía á eldinn; margir eru löngu búnir að fá sig fullsadda á því að lögregla skjóti óvopnaða blökkumenn til bana. Oscar Grant, Michael Brown, Eric Garner, svo einhverjir séu nefndir. Hvað þá á tímum þegar skotvopnaeign er aldrei sem fyrr í umræðunni og þrýst er á um herta byssulöggjöf. Clark-málið er þó bláköld áminning um það að lögregla skýtur mun fleira fólk til bana á ári hverju en fellur fyrir hendi fjöldamorðingja.
„Hver veitir lögreglunni aðhald?“ spurði Darron Powe, gamall vinur Clark-fjölskyldunnar, í vikunni. „Hver vill ljá okkur rödd?“

Stevante Clark er ekki bjartsýnn á að lögreglumennirnir sem skutu bróður hans þurfi að svara til saka. „Líkurnar á því að lögreglumenn séu dæmdir í fangelsi eru afar litlar. Réttlætinu verður ekki fullnægt vegna þess að bróðir minn á ekki afturkvæmt.“
Dauða Clarks hefur verið ákaft mótmælt í Sacramento og mótmælendur meðal annars lokað hraðbrautum og heft aðgengi að leik körfuboltaliðs borgarinnar, Sacramento Kings, sem lýst hefur yfir stuðningi við baráttu vandamanna Clarks; meðal annars með því að klæðast bolum honum til heiðurs fyrir leik gegn Boston Celtics á dögunum.

Hann var manneskja

Bent hefur verið á að Stephon Clark hafi áður komist í kast við lögin og setið inni. Luke Tailor, vinur hans, segir einu gilda hver hann var eða hvað hann hafði gert. „Hann var manneskja, sem í sjálfu sér er nóg til þess að halda baráttunni áfram.“

Bróðir Clarks segir fortíð hans ekki koma málinu á neinn hátt við. Hún réttlæti ekki árásina. „Hvers vegna tölum við ekki frekar um mistök lögreglumannanna? Fólk er hrætt við lögregluna. Ég er hræddur við að búa hérna. Mér finnst ég ekki öruggur. Hvert í andskotanum getur maður farið ef maður er ekki lengur öruggur heima hjá ömmu sinni?“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert