Martin Luther King: Ég óttast engan

Fólk gengur við safn tileinkað minningu Martins Luther King. Safnið …
Fólk gengur við safn tileinkað minningu Martins Luther King. Safnið er við Lorraine-hótelið þar sem hann var myrtur. Handan götunnar skaut byssumaðurinn hann. AFP

Fyrir nákvæmlega hálfri öld, þann 4. apríl árið 1968, stóð Martin Luther King á svölum Lorraine-hótelsins í Memphis og beið eftir vinum sínum. Hann var á leið til kvöldverðar til að fagna sigri í dómsmáli. Handan götunnar hafði hins vegar vopnaður maður komið sér fyrir. Hann miðaði byssunni á King, hleypti af og við skotið var mannréttindafrömuðurinn allur.

Árásarmaðurinn James Earl Ray var ekki einn að verki. Ekki í raun og veru. Er hann var handtekinn meira en tveimur mánuðum síðar á Heathrow-flugvelli hóf hann að spinna lygavef. Sumar lygarnar voru fáránlegar. Í fyrstu reyndi hann að ljúga því til að hann héti Ramon Sneyd og að hann hefði aldrei heyrt um James Ray. Síðar sagði hann það nafn bróður síns. 

Aðrar lygar sem hann fór með hafa verið olía á eld þeirra sem iðnir eru við að smíða samsæriskenningar. Sér í lagi gerðu þeir sér mat úr skáldaðri persónu sem Ray sagði hafa verið samverkamann sinn og kallaði Raoul. 

Mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King.
Mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King.

Í umfjöllun The Times um málið segir að sannleikurinn hafi í senn verið einfaldari og flóknari en svo. Þar segir að það hafi verið Ray sjálfur sem fékk þá hugmynd um að ráða King af dögum. Hann fylgdist með honum mánuðum saman. Hann keypti byssuna. Hann leigði herbergi í byggingunni þaðan sem hann skaut. Svo var það vissulega hann sem hleypti skotinu banvæna af.

Þó er hægt að halda því fram að hann hafi ekki verið einn að verki. Líkt og fram kemur í bók Hampton Sides um morðið, Hellhound on is Trail, höfðu vinir og aðstoðarmenn King meiri áhyggjur af því hvers vegna King var myrtur en hver gerði það. 

Kvöldið fyrir morðið hélt King ræðu í kirkju sem varð hans síðasta. Í ræðunni talaði hann um dauðann. Hann sagðist vilja lifa lengi en að það skipti hann þó ekki sköpum þar sem hann hefði náð „tindi fjallsins“. Hann sagðist hafa trú á því að fylgjendur hans myndu ná til fyrirheitna landsins en að ekki væri víst að hann færi þangað með þeim. Lokasetning ræðunnar var: „Ég er hamingjusamur í kvöld. Ég hef engar áhyggjur. Ég óttast engan. Augu mín hafa séð dýrð guðs.“

Einkunnarorð Martins Luther King á Lorraine-hótelinu í Memphis: Ég á …
Einkunnarorð Martins Luther King á Lorraine-hótelinu í Memphis: Ég á mér draum. AFP

Innihald ræðunnar hafði því mikið spádómsgildi. Í yfir áratug hafði King barist fyrir tilveru sinni og annarra. Morguninn sem hann flutti sína hinstu ræðu hafði honum til að mynda verið hótað lífláti. Margir sem stóðu honum nærri og höfðu tekið þátt í baráttunni fyrir mannréttindum svartra höfðu verið myrtir í gegnum árin. 

Í grein The Times er rifjað upp að þegar John F. Kennedy var skotinn til bana hafi King sagt við við eiginkonu sína, Corettu: „Þetta mun koma fyrir mig.“

Því dregur blaðamaður The Times, Daniel Finkelstein, þá ályktun að þó að James Earl Ray hafi hleypt af skotinu sem banaði King beri fleiri ábyrgð á dauða hans, m.a. stjórnmálamenn í suðurríkjunum sem borðist gegn því að hörku að mannréttindi svartra yrðu bætt. Þannig hafi t.d. George Wallace, ríkisstjóri Alabama, staðið í dyragætt skóla til að koma í veg fyrir að svört börn kæmust þar inn. James Ray hafði unnið með kosningateymi Wallace er hann bauð sig fram til forseta árið 1968.

Um 250 þúsund manns hlýddu á ræðu Martin Luther King …
Um 250 þúsund manns hlýddu á ræðu Martin Luther King 28. ágúst 1963. Wikipedia

Wallace mótmælti því ætíð að hann væri kynþáttahatari. Hann sagðist vera að verja vilja fólksins og því aðhylltist hann aðskilnaðarstefnu. Með þeim hætti laðaði hann að sér skoðanabræður á borð við James Ray.

Þá segir blaðamaður Times að ábyrgðin liggi einnig hjá Alríkislögreglunni og yfirmanni hennar á þessum tíma, J. Edgar Hoover. Í stað þess að vernda King hafi stofnunin njósnað um hann. 

FBI hleraði síma á hótelherbergjum þar sem King dvaldi og skráði niður við hverja hann átti í samskiptum. Lögregluyfirvöld létu hins vegar eins og þau sæju ekki það áreiti og ofbeldi sem King og aðrir svartir Bandaríkjamenn urðu fyrir.

Martin Luther King var hnepptur í fangelsi átján sinnum á lífsleiðinni. Bensínsprengju var kastað að húsi hans, hann var kýldur, stunginn í brjóstið og grjóti kastað í höfuð hans. Hann hafði vitað í mörg ár að hann yrði drepinn. Samt hélt hann áfram að berjast. 

Í kjölfar morðsins brutust út óeirðir í yfir hundrað borgum Bandaríkjanna m.a. Baltimore, Washington og Chicago. Talið er að meira en fjörutíu hafi fallið í því ofbeldi sem þeim fylgdu. 

King var 39 ára er hann lést. James Earl Ray játaði á sig morðið árið 1969 en dró játningu sína síðar til baka. Hann var dæmdur í 99 ára fangelsi.

Sýning um samtökin Ku Klux Klan sem enn í dag …
Sýning um samtökin Ku Klux Klan sem enn í dag berjast gegn mannréttindum svartra, er nú í mannréttindasafninu í Memphis. AFP

Mannréttindafrömuður dagsins í dag segja enn mikið verk óunnið. „Ég held að ýmislegt hafi áunnist. Að því sögðu þá er margt einn við það sama eins og kynþáttahatur og umræða um yfirburði hvítra,“ segir aðgerðarsinninn Bob Moore í samtali við CNN. „Það er hættulegt.“

Þeir benda á að margar öflugar hreyfingar hafi sprottið upp síðustu misseri, m.a. Occupy Wall Street, Black Lives Matter og March for our lives. „Ég held að ungt fólk í dag ætli að taka við keflinu þar sem frá var horfið á sjöunda áratugnum,“ segir Clayborne Carson, stofnandi King stofnunarinnar við Stanford-háskóla. Hann segir að ekki eigi að bíða eftir öðrum eins leiðtoga og Martin Luther King til að leiða byltinguna. „Ekki bíða. Búið til hreyfingu, stóra hreyfingu, og hún mun fæða af sér mikla leiðtoga. Þetta gerist ekki öðru vísi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert