Dró upp byssu á fundi með kjósendum

Þingmaðurinn og repúblikaninn Ralp Norman segir hvern þann sem skjóti …
Þingmaðurinn og repúblikaninn Ralp Norman segir hvern þann sem skjóti á sig þurfa að miða vel, af því að hann muni skjóta til baka. Ljósmynd/Bandaríkjaþing

Bandarískur þingmaður dró fram hlaðna skammbyssu á fundi með kjósendum í dag. Repúblikaninn og þingmaðurinn, Ralph Norman, sem á sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, segist hafa dregið fram byssuna til að leggja áherslu á orð sín um skotvopnaöryggi.

Sagði Norman í viðtali við dagblaðið The Post and Courier að hann hefði tekið upp byssuna og lagt hana á borðið í kvöldverðarboði með kjósendum í því skyni að koma þeim skilaboðum til skila að skotvopn væru bara hættuleg í röngum höndum.  

„Ég ætla ekki að vera Gabby Giffords,“ sagði Norman og vísaði þar til fyrrverandi þingkonu Arizona sem var skotin í höfuðið á fundi með kjósendum fyrir utan matvöruverslun árið 2011. Giffords særðist alvarlega í árásinni og varð í kjölfarið hörð baráttumanneskja gegn skotvopnaofbeldi.

„Mér er sama þó að ég deyji,“ hefur blaðið eftir Norman. „En hver sá sem skýtur á mig þarf að miða vel eða ég skýt til baka.“ Kvaðst hann reglulega ganga með vopn á almannafæri.

Miklar deilur hafa verið í Bandaríkjunum undanfarið um byssulöggjöf landsins og hafa kröfur um herta löggjöf í þeim efnum orðið æ háværari eftir að 17 manns fórust í skotárás á framhaldskóla í Parkland í Flórída í febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert