Loftárásir hafnar í Sýrlandi

Bandaríkin, Bretland og Frakkland hófu í nótt hernaðaraðgerðir gegn sveitum Bashars al-Assads Sýrlandsforseta. Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá því að sprengingar hafi heyrst í og við Damaskus. 

Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, segir loftárásirnar vera svar við efnavopnaárás sem gerð var í Douma nýverið. Var henni beint gegn almennum borgurum Sýrlands.

„Ég fyrirskipaði fyrir skömmu Bandaríkjaher að framkvæma nákvæmar árásir á skotmörk sem tengjast efnavopnagetu einræðisherra Sýrlands, Bashars al-Assads. Sameiginlegar aðgerðir með hersveitum Frakklands og Bretlands eru nú í gangi – við færum báðum þessum ríkjum þakkir,“ sagði Trump í ávarpi sem hann flutti í Hvíta húsinu klukkan 1 í nótt. 

„Þessi illa og viðurstyggilega árás skildi eftir sig mæður og feður, ungbörn og börn, emjandi af sársauka og í andnauð. Þetta eru ekki gjörðir manns. Þetta eru glæpir skepnu.“

Hótuðu að skjóta niður flaugarnar

Ráðamenn í Damaskus hafa staðfastlega neitað að bera ábyrgð á efnavopnaárásinni í Douma. Þá hafa stjórnvöld í Rússlandi varað vesturveldi við hernaðaraðgerðum í Sýrlandi og sagt slíkt geta leitt til enn stærri átaka. Hafa Rússar meðal annars hótað því að skjóta niður þær eldflaugar sem beint yrði gegn hersveitum Sýrlands. Engar fregnir hafa enn borist af viðbrögðum Rússa við árásum Bandaríkjamanna, Breta og Frakka.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur staðfest þátttöku breskra hersveita í aðgerðinni. Að sögn breska varnarmálaráðuneytisins gerðu fjórar herþotur af gerðinni Tornado loftárásir á skotmörk í námunda við borgina Homs, en talið er að þar megi finna efni og búnað sem nota má til framleiðslu á efnavopnum.

Trump Bandaríkjaforseti segir árásirnar ekki gerðar til að ýta undir stjórnarskipti í Sýrlandi. Tilgangur þeirra sé að koma í veg fyrir að ríki framleiði, dreifi og beiti efnavopnum. 

„Í kvöld bið ég alla Bandaríkjamenn um að biðja fyrir okkar hugrökku hermönnum og bandamönnum okkar á meðan þeir framkvæma aðgerðir sínar. Við biðjum fyrir því að guð hughreysti þá sem þjást í Sýrlandi. Við biðjum fyrir því að guð leiði allt svæðið í átt að friðsamri framtíð. Og við biðjum fyrir því að guð haldi áfram að líta eftir og blessa Bandaríkin,“ sagði Trump.

Getuleysi Rússa um að kenna

Þá beindi Donald J. Trump Bandaríkjaforseti orðum sínum sérstaklega að ráðamönnum í Kreml. Þeir höfðu heitið því að sjá til þess að efnavopnum stjórnarhers Sýrlands yrði eytt. Það loforð reyndist hins vegar innantómt. 

„Hvers konar þjóð vill láta bendla sig við fjöldamorð saklausra manna, kvenna og barna?“ sagði Trump í ræðu sinni. „Unnt er að dæma þjóðir heims með því að horfa til vina þeirra. Engin þjóð getur til lengdar staðið undir því að styðja stjórnlaus ríki, harðsvíraða stjórnarherra og morðóða einræðisherra.“

Að sögn Trumps verður Rússland nú að ákveða hvort það haldi áfram á „braut myrkurs“ eða hvort það ákveði að ganga til liðs við siðmenntaðar þjóðir. „Vonandi getum við einhvern tímann átt gott samband við Rússland og jafnvel Íran, en kannski ekki.“

Sýrlandsher svarar árásum

Talsmaður Pentagon, varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, segir orrustuþotur og herskip taka þátt í árásinni. Notast Bandaríkjamenn meðal annars við sprengjuflugvél af gerðinni B-1.

Ríkisfréttastofa Sýrlands greinir frá því að stjórnarher landsins taki virkan þátt í vörnum Sýrlands og að flugskeytum hafi verið skotið að herþotum bandalagssveita. Eru aðgerðir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka sagðar vera „ofbeldisverk“ í ríkisfréttastofu Sýrlands.

Þá hafa birst myndbönd af því þegar sýrlenskum eldflaugum er skotið á loft. Eru myndböndin, sem ekki er vitað með vissu hvar voru tekin, sögð sýna Sýrlandsher skjóta í átt að herþotum eða flugskeytum bandalagssveita. Voru þau að líkindum tekin upp í Damaskus.

Ríkisfréttastofa Sýrlands segir loftárásir hafa verið gerðir á rannsóknastöð í Damaskus. Halda þeir því fram að hersveitir Sýrlands hafi skotið niður minnst 13 flugskeyti bandalagssveita til þessa. Á flaugunum að hafa verið grandað í námunda við Damaskus.

Senda Assad skýr skilaboð

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hélt blaðamannafund í Pentagon. „Það er ljóst að ríkisstjórn Assads skildi ekki skilaboðin í fyrra. Í þetta sinn réðust bandamenn okkar og við á þá af meiri hörku. Saman höfum við sent Assad og hans morðóðu undirmönnum skýr skilaboð um að framkvæma ekki aðra efnavopnaárás,“ sagði hann.

Joseph Dunford, hershöfðingi og yfirmaður herráðs Bandaríkjanna, sagði árásirnar beinast að þremur svæðum, þ.e. rannsóknastöð í Damaskus, efnavopnageymslu vestur af Homs og mikilvægri stjórnstöð í námunda við áðurnefnda efnavopnageymslu.

Donald J. Trump ávarpaði þjóð sína í kvöld.
Donald J. Trump ávarpaði þjóð sína í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert