Nemendur köstuðu upp í skólanum

Dós af Oskars surströmming mynduð utandyra en þar telja margir …
Dós af Oskars surströmming mynduð utandyra en þar telja margir Norðmenn fisk þennan best geymdan. Árið 2014 komst það í fréttir í Noregi þegar 24 ára gömul dós af surströmming fannst og var opnuð en nærstöddum lá þá við yfirliði af fnyk. Ljósmynd/Wikipedia.org

Mál fimmtán ára gamals nemanda við grunnskólann í Vestby, sunnan við Ósló, hefur vakið töluverða athygli nýverið en þar deilir faðir nemandans við skólastjórann Marianne Thorvaldsen um brottvísun drengsins úr skóla, í máli sem skömmu áður hafði verið formlega lokið með afsökunarbeiðni.

Nemandinn vann sér það til sakar að mæta í skólann eftir páskafrí með dós af sænska fiskréttinum surströmming og opna hana þar. Fiskur þessi, sem er í raun síld en gengur undir nafninu strömming sé hann veiddur norðan við bæinn Kristianopel í Karlskrona, er vægast sagt umdeildur meðal Norðmanna sem kalla þó ekki allt ömmu sína þegar kemur að lykt- og bragðmiklum fiski. Án þess að fara ítarlega út í framleiðsluaðferðir sænsku síldarinnar er hún fyrst látin gerjast og byrja að rotna en síðar í ferlinu koma við sögu própansýra, smjörsýra og ediksýra. 

Einhver handagangur varð í öskjunni í skólanum í Vestby og endaði eitthvað af síldinni á gólfum þar og lyktaði gervallt húsnæðið fljótlega. Nemendur skólans kvörtuðu yfir ógleði og almennri vanlíðan og köstuðu að minnsta kosti tveir upp. Sá skólastjóri sitt óvænna, rýmdi skólann og vísaði öllum nemendum, 356 að tölu, heim áður en tókst að ljúka kennslu þann daginn.

Lítill sómi að stjórnandi menntastofnunar ljúgi að blöðunum

Hlaut nemandinn ákúrur frá Thorvaldsen skólastjóra og var gert að þrífa upp síldina auk þess sem ræstingafólk skólans þreif allan vettvanginn hátt og lágt á meðan loftað var út svo sem hægt var. Varð það að lokum samkomulag drengs og skólastjóra að einföld afsökunarbeiðni hins seka yrði tekin gild og málinu þar með lokið.

Þegar drengurinn mætti í skólann daginn eftir var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn og honum gert ljóst að síldaratvikið kostaði hann tveggja daga brottvísun úr skólanum, enda samnemendum hans mikill miski gerður.

Þetta þóttu föður drengsins ill tíðindi og hófust þar með deilur sem að minnsta kosti fimm norskir fjölmiðlar hafa fjallað um síðustu daga, þar á meðal dagblaðið VG sem hefur undir höndum skriflega brottvísun frá skólastjóra, dagsetta sama dag og skólastjóri lauk málinu munnlega eftir að strákur baðst afsökunar.

Hafa hvort tveggja VG og staðardagblaðið Vestby Avis hringt ítrekað í Thorvaldsen og boðið henni að skýra mál sitt en skólastjóri segir ekki um opinbert mál að ræða og neitar að tjá sig um hvort hún hafi lofað því munnlega að drengnum yrði ekki gerð refsing. „Það eina sem ég get sagt ykkur núna er að ég hef ekkert að segja,“ voru lokaorð hennar við blaðamann VG.

„Það er lítill sómi að því að stjórnandi menntastofnunar, sem ætlað er að innræta börnum heiðarleika og góða siði, ljúgi að blöðunum,“ segir faðir drengsins sem stendur fast á því að skrifleg áminning hefði þurft að vera undanfari brottreksturs úr skóla.

Skólastjóri bauðst í gær til þess að veita helmingsafslátt af refsingunni og vísa drengnum aðeins einn dag úr skólanum en faðirinn segist ekki vilja fallast á þá málamiðlun og hyggst áfrýja málinu til skólanefndar Vestby veiti Thorvaldsen ekki fulla náðun.

Aðrar fréttir um málið en vísað hefur verið til:

Frá VG

Frá Aftenposten

Frá Moss Avis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert