Banna fóstureyðingu við fyrsta hjartslátt

Iowa-ríki hefur samþykkt frumvarp um lög gegn fóstureyðingum sem kveða …
Iowa-ríki hefur samþykkt frumvarp um lög gegn fóstureyðingum sem kveða á um bann við því að fóstri sé eytt um leið og hægt er að greina hjartslátt fóstursins. AFP

Iowa-ríki samþykkti í dag frumvarp um lög gegn fóstureyðingum sem kveða á um bann við því að fóstri sé eytt um leið og hægt er að greina hjartslátt fóstursins. Segir BBC lögin vera ein þau ströngustu um málið sem í gildi eru í Bandaríkjunum.

Þingmeirihluti repúblikana á Iowa þingi samþykkti frumvarpið, sem er nú komið inn á borð ríkisstjóra til samþykktar. Kim Reynolds, ríkisstjóri Iowa, hefur ekki tjáð sig um það hvort hún muni undirrita frumvarpið. Á síðasta ári fékkst þingmeirihluti í Iowa fyrir banni við fóstureyðingu eftir 20 vikna meðgöngu.

Samkvæmt nýja frumvarpinu verður bannað að eyða flestum fóstrum sem eru eldri en sex vikna og hafa gagnrýnendur frumvarpsins bent á að með því verði fóstureyðing ólögleg áður en flestar konur geri sér grein fyrir að þær séu óléttar.

„Hjartsláttarfrumvarpið“ svonefnda kveður á um að þær konur sem vilja láta eyða fóstri verði að fara í ómskoðun áður þar sem kannað verði hvort að hjartsláttur greinist hjá fóstrinu. Greinist hjartsláttur er bann lagt við fóstureyðingu. Nokkrar undantekningar eru þó við banninu, t.a.m. ef um nauðgun eða sifjaspell er að ræða og atvikið hefur verið tilkynnt til yfirvalda. Eins er gerð undantekning ef líf móðurinnar er í hættu.

„Við erum á lífi frá því að hjarta okkar byrjar að slá og lífinu líkur þegar það hættir,“ sagði repúblikanaþingmaðurinn Dawn Pettengil.

Demókrataþingmaðurinn Beth Wessel-Kroeschell mótmælti frumvarpinu með ræðu í þinghúsi Iowa í gær. „Allar konur óháð aldri, tekjum eða kynþætti ættu að geta notið heilbrigðisþjónustu, m.a. fóstureyðingar án pólitískra og efnahagslegra hindrana,“ sagði Wessel-Kroeschell.

Mannréttindasamtök í Iowa hafa líka mótmælt frumvarpinu. „Þessar öfgafullu tilraunir til að banna fóstureyðingar ganga gegn læknisfræðilegum og lagalegum stöðlum, sem og almennri skynsemi og áliti almennra íbúa Iowa,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum Planned Parenthood er frumvarpið var fyrst kynnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert