Taugaeitrið hreint og í miklu magni

Rannsókn var m.a. gerð á girðingu í nágrenni bekkjarins þar …
Rannsókn var m.a. gerð á girðingu í nágrenni bekkjarins þar sem Skripal feðginin fundust. AFP

Allt að 100 grömm af Novichok taugaeitrinu kunna að hafa verið notuð til að eitra fyrir rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans. Þetta er niðurstaða sérfræðinga OPCW, alþjóðlegrar stofnunar gegn notkun efnavopna.

Skripal feðginin fundust meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury  og leiddu rannsóknir síðar í ljós að þau höfðu komist í snert við taugaeitrið Novichok. Bæði eru komin til meðvitundar núna og eru á batavegi. Hafa bresk stjórnvöld sagt rússneska ráðamenn bera ábyrgð á árásinni, sem þeir hafa alfarið neitað.

Ahmet Uzumcu, yfirmaður OPCW segir magnið af taugaeitrinu sem fannst benda til þess að það hafi verið notað sem vopn. Þá hafi prufurnar sem fundust einnig sýnt það vera „mjög hreint“.

Dagblaðið New York Times  hefur eftir Uzumcu að það magn Novichoks sem talið er hafa verið notað hafi verið umtalsvert meira en ef um efni í tilraunaskyni hefði verið að ræða. „5-10 g hefðu dugað í slíku tilfelli, en rannsókn okkar á nokkrum stöðum í Salisbury gefur til kynna að 50, 100 grömm eða svo“ hafi verið notuð, sagði Uzumcu.

Það magn, sagði hann, „er mun meira en þarf í rannsóknarskyni“. Þá virðist sem taugagasið hafi verið í vökvaformi og að því hafi verið dreift með úðabrúsa. „Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að taugagasið virðist vera mjög þrávirkt,“ bætti Uzumcu við.

„Veðrið hefur ekki haft áhrif á það. Það útskýrir í raun að hægt hafi verið að bera kennsl á það eftir umtalsverðan tíma. Við höfum líka fundið að það var mjög hreint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert