Engar pyndingar undir stjórn Haspel

Gina Haspel ræðir við þingnefndina.
Gina Haspel ræðir við þingnefndina. AFP

Gina Haspel, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt sem næsta yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, segir að stofnunin muni ekki beita pyndingum undir hennar stjórn.

Þetta kom fram í yfirheyrslu nefndar bandarísku öldungadeildarinnar yfir henni. Þingið mun í framhaldinu kjósa um hvort hún fær embættið eða ekki. 

Haspel hefur verið gagnrýnd fyrir tengsl sín við leynilegt fangelsi CIA á Taílandi árið 2002 þar sem liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída voru beittir vatnspyntingum.

Haspel situr fyrir svörum.
Haspel situr fyrir svörum. AFP

Haspel sagði við þingefndina að hún myndi ekki styðja slíkt athæfi í framtíðinni ef hún verður skipuð forstjóra CIA.

„Eftir að hafa verið við störf á róstusömum tíma get ég staðfest það persónulega án nokkurs vafa að undir stjórn minni muni CIA ekki hneppa menn aftur í slíkt varðhald og láta þá gangast undir slíkar yfirheyrslur,“ sagði hún.

„Þegar horft er til baka er ljóst…að CIA var ekki tilbúið til að framkvæmda slíkt varðhalds- og yfirheyrsluverkefni.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert