Rasistum meinaður aðgangur

Franprix verslun í 13. hverfi Parísar.
Franprix verslun í 13. hverfi Parísar. Wikipedia/WhisperToMe

„Rasistar fá ekki heimild til þess að koma inn í þessa verslun,“ stendur á handskrifuðu blaði sem hangir á glugga matvöruverslunar í París.

Verslunarstjórinn er gyðingur og hann hefur fengið nóg af rasistum sem ráðast ítrekað á hann og starfsmenn verslunarinnar með fúkyrðaflaum. Lítið þarf til þess að æsa rasista upp ekki annað en þeir telji biðröðina of langa við kassann.

Samkvæmt frétt BBC er verslunin útibú Franprix í 19. hverfi en hverfið er þekkt fyrir að vera rólegt og grænt hverfi þar sem íbúarnir eru af fjölmörgum þjóðernum og kynþáttum.

Á tilkynningunni segir að í versluninni starfi arabar, svartir, Asíubúar, gyðingar, hvítir og aðrir. Verslunarstjórinn, Jean-Jacques, setti tilkynninguna upp og hefur hún vakið mikla athygli. 

„Ég var gjörsamlega búinn að fá nóg af rasistum, gyðingahatri og karlrembu,“ segir Jean-Jacques í viðtali við France Info. „Ekki síst vegna þess að þetta hatur og móðganir koma úr öllum áttum, daglega og hættir aldrei.“

Hann hefur tvisvar sinnum tilkynnt níðið til lögreglu án þess að það hafi skilað nokkrum árangri. „Ég er gyðingur, félagi minn er ítalskur, einn starfsmanna minna er kínverskur. Við höfum allir verið smánaðir. Þetta er óþolandi.“ 

Franskir stjórnmálamenn hafa lýst yfir áhyggjum af gyðingahatri í París og fleiri frönskum borgum undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert