Trump tók mikla áhættu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað á þriðjudag að draga Bandaríkin …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað á þriðjudag að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi við Íran. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók mikla áhættu með þeirri ákvörðun sinni að draga landið út úr samningnum við klerkastjórnina í Íran um kjarnorkuáætlun hennar, að mati margra fréttaskýrenda. Þeir telja ákvörðunina m.a. auka hættuna á átökum milli herja Írans annars vegar og Bandaríkjanna, Ísraels eða Sádi-Arabíu hins vegar.

Ákvörðunin gæti einnig orðið til þess að klerkastjórnin í Íran drægi landið út úr kjarnorkusamningnum og hæfi auðgun úrans sem hægt væri að nota í kjarnavopn. Þar að auki dregur ákvörðun Trumps úr trúverðugleika Bandaríkjanna sem viðsemjanda og hún gæti m.a. torveldað forsetanum að ná samkomulagi við einræðisstjórnina í Norður-Kóreu um kjarnorkuafvopnun. Hvernig geta viðsemjendurnir treyst því að bandarísk stjórnvöld standi við gerða samninga?

Með samningnum við Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland frá árinu 2015 skuldbatt klerkastjórnin í Íran sig til að takmarka verulega kjarnorkuáform sín gegn því að viðskiptaþvingunum gegn landinu yrði aflétt. Stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi, Kína, Rússlandi og Þýskalandi segjast ætla að standa við samninginn og telja að Íranar hafi staðið að fullu við skilmála hans. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur einnig staðfest það. Jafnvel hátt settir embættismenn í Bandaríkjunum hafa tekið undir þetta, þeirra á meðal Mike Pompeo utanríkisráðherra og Dan Coats, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar.

Kort/AFP

Gætu hafið auðgun úrans

Afleiðingar ákvörðunar Trumps ráðast að miklu leyti af því hvernig klerkastjórnin í Íran bregst við henni á næstu mánuðum. Fréttaveitan AFP hefur eftir stjórnarerindreka vestræns ríkis í Teheran að írönsku ráðamennirnir séu í erfiðri stöðu því að þeir telji sig þurfa að svara ákvörðuninni af hörku, án þess þó að hætta á að missa stuðning Evrópuríkjanna í deilunni.

Nokkrir fréttaskýrendur segja að Íranar geti svarað ákvörðun Trumps með því að skaða hagsmuni Bandaríkjanna í grannríkjum Írans, m.a. Sýrlandi og Írak, þar sem áhrif Írana hafa aukist á síðustu misserum.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði eftir að Trump tilkynnti ákvörðun sína að Íranar hygðust hefja viðræður við ríkin sem styðja enn samninginn en varaði við því að tíminn til að semja um málið væri naumur og Íranar kynnu að hefja kjarnorkuáætlun sína að nýju með því að auðga úran „án nokkurra takmarkana“. Yfirmaður Kjarnorkumálastofnunar Írans sagði að landið gæti hafið auðgun úrans innan fimm daga.

Hassan Rouhani, forseti Írans.
Hassan Rouhani, forseti Írans. AFP

Styrkti stöðu harðlínumanna

Sérfræðingar í öryggismálum eru ekki á einu máli um hversu langan tíma Íranar þyrftu til að smíða kjarnavopn. Kjarnorkusamningurinn frá 2015 átti að tryggja að Íranar myndu þurfa að minnsta kosta eitt ár til að framleiða nógu mikið af auðguðu úrani til að geta búið til kjarnorkusprengju. Flestir sérfræðinganna telja að samningurinn hafi tryggt þetta þar sem hann skyldi Írana til að minnka birgðir sínar af auðguðu úrani um 98% og fækka um tvo þriðju skilvindum sem notaðar eru til að auðga úran.

Nokkrir sérfræðinganna telja að Íranar myndu þurfa nokkur ár til að smíða fyrsta kjarnavopnið, en aðrir segja að þeir gætu gert það á um það bil einu og hálfu ári. Óvissan stafar m.a. af því að ekki er vitað hversu mikla þekkingu Íranar hafa á smíði kjarnavopna. Ennfremur er óljóst hvort Íranar geti framleitt eldflaugar sem gætu borið kjarnaodda.

Bandarískir embættismenn, þeirra á meðal Mike Pompeo, hafa látið í ljós efasemdir um að Íranar hefjist strax handa við framleiðslu kjarnavopna. „Íranar voru ekki að flýta sér að framleiða vopn fyrir samninginn,“ sagði Pompeo á fundi með bandarískum þingmönnum í síðasta mánuði. „Ég veit ekki um neitt sem bendir til þess að þeir myndu flýta sér að framleiða kjarnavopn núna ef samningurinn heyrði sögunni til.“

Margir fréttaskýrendur telja að Íranar hafi hag af því að hefja ekki auðgun úrans og vísa ekki erlendum vopnaeftirlitsmönnum úr landi þótt Trump hafi dregið Bandaríkin út úr samningnum. Þeir segja að Íranar vonist til þess að halda viðskiptum við Evrópuríki og vilji ekki stefna þeim í hættu með tilraunum til að verða sér úti um kjarnavopn.

Ákvörðun Trumps gæti þó styrkt stöðu harðlínumanna og þjóðernissinna í klerkastjórninni sem voru andvígir kjarnorkusamningnum og tilraunum Rouhanis forseta til að bæta tengsl Írans við vestræn ríki. Sumir þeirra vilja ekki aðeins að Íranar dragi sig út úr kjarnorkusamningnum heldur einnig alþjóðasamningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna, NPT.

Námsmenn kveikja í bandarískum fánum fyrir utan byggingu, sem hýsti …
Námsmenn kveikja í bandarískum fánum fyrir utan byggingu, sem hýsti áður sendiráð Bandaríkjanna í Teheran, til að mótmæla ákvörðun Trumps að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamningnum. AFP

Nýtt vígbúnaðarkapphlaup?

Gerald F. Seib, fréttaskýrandi The Wall Street Journal, telur að Trump hafi tekið meiri áhættu en nokkru sinni fyrr með ákvörðun sinni í Íransmálinu. Til að mynda geti hún leitt til aukinnar spennu og jafnvel átaka milli Írans annars vegar og Bandaríkjanna, Ísraels eða Sádi-Arabíu hins vegar.

„Í versta falli gætu Íranar hafið ákveðna kjarnorkustarfsemi og annaðhvort Bandaríkjamenn eða Ísraelar teldu hana óviðunandi, beittu hervaldi og Íranar svöruðu því með því að beita öllum tækjum sínum í þessum heimshluta og víðar í heiminum,“ hefur The Wall Street Journal eftir Richard Haass, forseta hugveitunnar Council on Foreign Relations. Hann segir að á meðal úrræða Írana séu hryðjuverkastarfsemi og tölvuhernaður. Haass telur einnig að ef Íranar byrja aftur að auðga úran með það fyrir augum að framleiða kjarnavopn geti það orðið til þess að Sádi-Arabía og hugsanlega fleiri ríki í Mið-Austurlöndum dragi sig út úr samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna til að geta orðið sér úti um slík gereyðingarvopn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert