Ekki slys heldur morð

Holger Hagenbusch og Krzysztof Chmielewski voru myrtir í Chipas í …
Holger Hagenbusch og Krzysztof Chmielewski voru myrtir í Chipas í Mexíkó. Af Facebook-síðu Rainer Hagenbusch

Tveir evrópskir hjólreiðamenn sem talið var að hefðu látist af slysförum í Mexíkó voru myrtir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá saksóknara í Mexíkó.

Í frétt BBC kemur fram að lík Þjóðverjans Holger Hagenbusch og Pólverjans Krzysztof Chmielewski hafi fundist fyrir neðan hamravegg í Chiapas-ríki. Lögreglan þar hélt því fyrst fram að tvímenningarnir hefðu misst stjórn á hjólum sínum og fallið til bana. 

Ættingjar og aðrir hjólreiðamenn áttu erfitt með að sætta sig við þá skýringu og kröfðust þess að málið yrði rannsakað frekar. Að sögn sérstaks saksóknara, Luis Alberto Sánchez, hefur komið í ljós að tvímenningarnir voru myrtir og sennilega hafi verið um ránsmorð að ræða.

Lík Chmielewski fannst á undan, 40 metrum fyrir neðan veginn, 26. apríl. Átta dögum síðar fannst lík Hagenbusch neðar í gljúfrinu en það er fyrir neðan veginn á milli Ocosingo og San Cristóbal de las Casas. 

Ríkissaksóknari í Chiapas, Arturo Pablo Lievano, hafði áður sagt að það væri ekkert sem benti til þess að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað heldur hefði þetta verið slys. En bróðir Hagenbuschr, Reiner, átti erfitt með að trúa saksóknaranum og í viðtölum í Þýskalandi sagðist hann sannfærður um að bróðir hans hafi verið myrtur og að um tilraun til þess að hylma yfir morðingjunum væri að ræða.

Þegar hann kom til Mexíkó að bera kennsl á lík bróður síns fékk hann upplýsingar um pólska hjólreiðamanninn en sá hafði verið aflimaður og vantaði á hann fótlegg.

Er nú talið að ráðist hafi verið á hjólreiðamennina 19. eða 20. apríl. Chmielewski er með höfuðáverka sem jafnvel er talið að sé eftir byssukúlu, segir Sánchez. Lík hans fannst við hlið reiðhjóls en ekki hans heldur félaga hans, Hagenbusch. 

Sánchez segir í viðtali við BBC að árásarmennirnir hafi væntanlega reynt að fela ummerki um morðin og reynt að láta þau líta út eins og slys. Því hafi þeir komið reiðhjólinu fyrir en ekki gert sér grein fyrir að um reiðhjól Þjóðverjans var að ræða. 

Krzysztof Chmielewski, sem var 37 ára gamall, hafði verið á ferðalagi um heiminn í þrjú ár á reiðhjóli. Hann hafði heimsótt 51 land og síðasta árið hafði hann hjólað um Kanada og Bandaríkin áður en hann kom til Mexíkó. Til stóð hjá honum að halda áfram suður alla leið til Argentínu og var kominn langleiðina til Gvatemala þegar hann var myrtur.

Holger Hagenbusch, var 43 ára gamall og hafði komið til 34 landa á undanförnum fjórum árum á reiðhjóli.

Þeir þekktust ekki en höfðu hist í Chiapas og að sögn Sánchez bendir allt til þess að stutt hafi verið á milli þeirra. Væntanlega hafi verið ráðist á þann sem var á undan fyrst og þegar hinn kom að þá hafi einnig verið ráðist á hann. Eitthvað af eigum þeirra hefur ekki fundist og það sé eiginlega ótrúlegt að halda því fram að þetta hafi verið slys. Hjól Þjóðverjans er ekki með nein ummerki um að hafa lent í óhappi. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert