Hertogaynjan af Sussex boðberi nýrra tíma

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að Harry Bretaprins gekk að eiga bandarísku leikkonuna Meghan Markle í Windsor-kastala í dag. Brúðkaupið var ólíkt fyrri konunglegum brúðkaupum í Bretlandi, sér í lagi vegna þeirra áhrifa sem uppruni Markle hafði á dagskrá athafnarinnar, en Doria Ragland móðir hennar er svört – afkomandi þræla á plantekrum Alabama.

Svartri menningu var hampað við athöfnina og vakti þrumuræða bandaríska biskupsins Michael Curry mikla athygli, en breski aðallinn vissi ekki alveg hvernig hann átti að haga sér á meðan ræðu hans stóð.

Þá voru mörg amerísk frægðarmenni viðstödd athöfnina og þeirra á meðal þekktar svartar konur, til dæmis Oprah Winfrey og tennisstjarnan Serena Williams. Bandarískur gospelkór söng lagið Stand by me eftir Ben E. King og hin nýgiftu hjón gengu síðan út úr kapellunni við lagið This little light of mine eftir Ettu James, einn af kennisöngvum mannréttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna á síðustu öld.

Hertoginn og hertogaynjan af Sussex þykja marka straumhvörf innan bresku …
Hertoginn og hertogaynjan af Sussex þykja marka straumhvörf innan bresku krúnunnar. AFP

Er út úr kastalanum var komið tók mikill fjöldi manns á móti þeim Meghan og Harry með gríðarlegum fagnaðarlátum. Fréttamenn New York Times á staðnum segja frá því að í mannfjöldanum hafi verið margar svartar konur frá Bandaríkjunum og að þær hafi verið djúpt snortnar við það að sjá litaða konu njóta jafn mikillar aðdáunar og raun bar vitni.

Doria Ragland, móðir Meghan Markle, ásamt Karli Bretaprins.
Doria Ragland, móðir Meghan Markle, ásamt Karli Bretaprins. AFP

„Afkomandi þræla er að giftast meðlimi konungsfjölskyldu sem áður gaf samþykki sitt fyrir þrælahaldi. Ljónið er að leggjast niður með lambinu,“ sagði Denise Crawford frá Brooklyn við New York Times. Hún sagðist vera komin til Windsor til að verða vitni að því hvernig breska heimsveldið sé að breytast til framtíðar.

Elísabet Bretadrottning fylgist grannt með Meghan Markle við athöfnina í …
Elísabet Bretadrottning fylgist grannt með Meghan Markle við athöfnina í dag. AFP

Harry Bretaprins hefur lengi kallað eftir því að breska konungsfjölskyldan færi sig nær daglegu lífi þegna sinna og verði ögn alþýðlegri. Samband hans við Markle hefur talið dæmi um það, en hún er þremur árum eldri en Harry auk þess að vera fráskilin, bandarísk og af blönduðum uppruna. Það að þau hafi kosið að veita menningu svartra Bandaríkjamanna jafn mikið vægi við athöfnina í dag og raun bar er talið benda til þess að hjónin ætli sér að færa ímynd bresku konungsfjölskyldunar inn í nýja tíma.

Charlotte Osborn, Lundúnabúi sem gerði sér ferð til Windsor í dag segir við NYT að brúðkaup dagsins sýni hver langt Bretland sé komið frá árinu 1936, er Játvarður Bretlandskonungur sagði sig frá krúnunni til þess að geta gengið að eiga Wallis Simpson, fráskilda bandaríska konu.

„Þetta er nútímaútgáfan af Wallis Simpsons, þar sem allt endar skynsamlega, fremur en með hörmungum,“ segir Osborn.

Umfjöllun New York Times um hið konunglega brúðkaup

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert