Má ekki loka á Twitter-notendur

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, er óheimilt samkvæmt lögum að loka á Twitter-notendur sem eru ósammála honum. Bandarískur alríkisdómstóll komst að þessari niðurstöðu í dag en talið er að dómurinn geti haft víðtæk áhrif á opinbera embættismenn í Bandaríkjunum sem nota samfélagsmiðla.

Fram kemur í frétt AFP að dómarinn Naomi Reice Buchwald hefði komist að þeirri niðurstöðu að það færi gegn ákvæðum stjórnarskrár Bandaríkjanna um tjáningarfrelsi ef Trump lokaði á Twitter-notendur þannig að þeir gætu ekki séð færslur sem hann setti á Twitter-síðu sína og sagt skoðun sína á þeim.

Hópur Twitter-notenda og stofnun um tjáningarfrelsi við Columbia-háskólann höfðaði málið en í málshöfðuninni er bent á að Trump noti Twitter meðal annars til þess að koma opinberum tilkynningum á framfæri. Twitter-síða hans sé því opinber vettvangur sem óheimilt væri að útiloka fólk frá vegna stjórnmálaskoðana.

Þrátt fyrir að Trump hefði einnig sitt tjáningarfrelsi gæti hann ekki brotið gegn réttindum annarra Twitter-notenda. Buchwald taldi ekki rétt að verða við þeirri ósk að sett yrði lögbann á að Trump lokaði á Twitter-notendur og lét nægja að láta þess getið að hún ætti von á því að Hvíta húsið færi að niðurstöðu hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert