Bann við fóstureyðingum líklega afnumið

Írar greiddu atkvæði um hvort afnema eigi stjórnarskrárákvæði sem kveður …
Írar greiddu atkvæði um hvort afnema eigi stjórnarskrárákvæði sem kveður á um bann við fóstureyðingu í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. AFP

Útlit er fyrir að Írar samþykki að afnema stjórnarskrárákvæði sem kveður á um bann við fóstureyðingu. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í landinu í dag og hefur kjörstöðum verið lokað. Kjós­end­ur voru spurðir hvort þeir vilji af­nema grein 40.3.3, sem er bet­ur þekkt sem átt­unda breyt­ing stjórn­ar­skrár­inn­ar, sem síðan árið 1983 hef­ur metið líf ófædds fóst­urs og ófrískr­ar konu að jöfnu.

Samkvæmt útgönguspám verður breytingin samþykkt með 68% atkvæða. 32% eru á móti breytingunni. Niðurstöðurnar eru byggðar á könnun meðal 4.000 kjósenda sem Irish Times lét framkvæma. Verði þetta niðurstaðan mun hún hafa áhrif á líf þúsunda kvenna og verður hún jafnframt til marks um minnk­andi áhrif kaþólsku kirkj­unn­ar í land­inu. Um 78% Íra eru kaþólsk­ir.

Verði niðurstaða þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar að af­nema eigi ákvæðið seg­ist rík­is­stjórn­in ætla að leggja fram lög­gjöf sem leyfi ótak­markaðar fóst­ur­eyðing­ar á fyrstu tólf vik­um meðgöngu.

Um 73% kosningaþátttaka

Kosningaþátttaka hefur verið góð og um miðjan dag var þátttakan meiri en þegar þjóðaratkvæðagreiðsla um samkynja hjónabönd fór fram og í síðustu þingkosningunum. Fyrstu tölur benda til þess að kosningaþátttaka hafi verið um 73%.

Sam­kvæmt nú­gild­andi lög­um eru fóst­ur­eyðing­ar aðeins heim­il­ar á Írlandi ef lífi móður er stefnt í hættu. Það hef­ur haft það í för með sér að þúsund­ir írskra kvenna hafa farið til Eng­lands á hverju ári til að fara í fóst­ur­eyðing­ar.

Talning atkvæða hefst ekki fyrr en á morgun og búast má við að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggi fyrir eftir hádegi á morgun.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert