Endurvinnslan krefst einkaréttar til sorphirðu

Rolf-Ørjan Høgset, ljósmyndari, tónlistarmaður, bloggari og ploggari, heldur hér á …
Rolf-Ørjan Høgset, ljósmyndari, tónlistarmaður, bloggari og ploggari, heldur hér á hluta af þeim tæpu 400 kílógrömmum af sorpi sem þeir félagar tíndu í, að því er þeir héldu, sakleysi sínu. Þetta góða framtak gæti kostað þá 1,3 milljónir. Mynd: Rolf-Ørjan Høgset

Það síðasta sem Rolf-Ørjan Høgset og vinir hans áttu von á, þegar þeir tíndu 400 kíló af sorpi við ströndina í sjálfboðavinnu, var að endurvinnslan á svæðinu hótaði að rukka þá um rúma milljón vegna meints einkaleyfis hennar til sorphirðu.

„Það er ekki auðvelt að hreinsa upp rusl í Noregi. Kerfið gerir ekki ráð fyrir umkomulausu sorpi,“ segir Rolf-Ørjan Høgset í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en Rolf-Ørjan og vinir hans tóku sig til og tíndu á fjórða hundrað kílógramma af sorpi við sjóinn í Mandal, skammt frá Kristiansand, um hvítasunnuna. Sjálfboðaliðaátak þeirra vinanna átti aldeilis eftir að draga dilk á eftir sér.

Nokkrum dögum eftir rausnarlegt átak landhreinsunarmannanna barst þeim kvörtun frá endurvinnslunni á svæðinu, Renovasjonsselskapet Maren, sem um leið hótaði að rukka þá félagana um 100.000 norskar krónur, jafnvirði 1,3 milljóna íslenskra króna, fyrir að taka fram fyrir hendur endurvinnslunnar sem ætti einkarétt á allri sorphirðu í og við strendur sumarleyfisparadísarinnar Mandal.

„Við stóðum í raun frammi fyrir því að velja um hvort við ættum að láta ruslið liggja þarna eða taka það,“ segir Rolf-Ørjan, en þeir félagarnir kölluðu björgunarsveit svæðisins á vettvang á bátum til að hjálpa þeim að ferja ruslið úr víkinni þar sem það lá. Þessi háttsemi þeirra strauk endurvinnslumönnum Maren rækilega andhæris enda telja þeir sig eiga einkarétt á sorphirðu þrátt fyrir augljóslega slæleg vinnubrögð á þeim vettvangi.

Rolf-Ørjan og félagar hans eru miklir áhugamenn um nýjasta æði umhverfisverndarsinna, svokallað „plogging“ sem ber með sér sameinað skokk og ruslatínslu í náttúrunni.

„Þetta er algjört rugl, þeir hóta þessu en ég held að þetta sé nú bara eitthvað í nösunum á þeim,“ sagði Rolf-Ørjan í stuttu samtali við mbl.is fyrir skömmu sem aðallega snerist um leyfi til að nota mynd frá honum við fréttina en hann er atvinnuljósmyndari, tónlistarmaður og landsþekktur vefdagbókarskrifari (eða „bloggari“) sem auk þess gaf út uppskriftabókina Polarsirkelmat (Heimskautamatur) árið 2007 og er þekktur í heimabæ sínum, Drammen, undir listamannsnafninu Rolfie.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert