Hvað er að gerast í Níkaragva?

Mótmælandi ber heimatilbúna sprengjuvörpu við vegatálma.
Mótmælandi ber heimatilbúna sprengjuvörpu við vegatálma. AFP

Óeirðir hafa brotist út í Mið-Ameríkuríkinu Níkaragva síðustu vikur og á einum mánuði hafa að minnsta kosti 84 fallið og 860 særst. Upphafið má rekja til niðurskurðar í velferðarmálum og fámennra mótmæla en á stuttum tíma sauð upp úr og ofsafengin átök, í kjölfar mótmæla þúsunda, brotist út. 

Í fréttaskýringu BBC um málið segir að í fyrstu hafi nokkur hundruð manns, aðallega ellilífeyrisþegar, streymt út á götur og mótmælt niðurskurði stjórnvalda. Yfirvöld og hópar sem hliðhollir eru ríkisstjórninni brugðust hart við, m.a. með barsmíðum. Þetta hafði þau áhrif að þúsundir almennra borgara gengu til liðs við mótmælendurna. Ekki leið á löngu þar til kröfugöngur og baráttufundir voru haldnir á nær hverju götuhorni. Stjórnvöld hafa dregið fyrirætlanir um niðurskurð í hinu aðþrengda velferðarkerfi til baka en það hefur ekki dugað til að lægja óánægjuölduna. 

Stuðningsmaður Daniels Ortega skýtur af heimatilbúnu vopni á götum úti.
Stuðningsmaður Daniels Ortega skýtur af heimatilbúnu vopni á götum úti. AFP

Ofbeldisverk hafa verið framin af báðum fylkingum. Margir lögreglumenn hafa særst en hinir föllnu eru þó flestir úr röðum mótmælendanna. Þrír ríkisstarfsmenn hafa verið drepnir og einn blaðamaður var skotinn til bana er hann var að fylgjast með gangi mála á götum úti. Mótmælendur vilja meina að skæruliðaforinginn fyrrverandi, Daniel Ortega forseti, hagi sér nú eins og einræðisherra. 

Byltingarmaður hallar sér að Bandaríkjunum

Ortega komst fyrst til valda árið 1979 í kjölfar byltingar sem gerð var til að steypa þáverandi einræðisstjórn af stóli. Ortega var þá ung­ur bylt­ing­ar­leiðtogi og kunnu stjórn­völd í Banda­ríkj­un­um lítt að meta um­skipt­in í land­inu, að marx­ist­ar hefðu tekið völd. Ákváðu Banda­ríkja­menn að styðja Contra-skæru­liðana og grafa und­an sandín­ist­um sem Ortega leiddi. Borg­ara­stríð braust út, tugþúsundir féllu, og fór Ortega frá völdum árið 1990. 

Gert að sárum mótmælanda sem varð fyrir gúmmíkúlum lögreglunnar.
Gert að sárum mótmælanda sem varð fyrir gúmmíkúlum lögreglunnar. AFP

Hann snéri svo aftur í embætti forseta fyrir ellefu árum og þó að hann haldi á lofti orðræðu sósíalista hefur einkageirinn og viðskipti við Bandaríkjamenn vaxið og dafnað í hans valdatíð. Saka mótmælendur hann og konu hans nú um spillingu og gagnrýna stjórnarhætti hans.

Heimatilbúnar sprengjuvörpur

Hreyfing mótmælenda nú er talin sjálfsprottin en ekki einsleit. Hafa sumir mótmælenda beitt heimatilbúnum sprengjuvörpum frammi fyrir lögreglunni sem er grá fyrir járnum. Sambærileg vopn eru einnig borin af stuðningsmönnum Ortega forseta sem einnig hafa þyrpst út á götur.

Eins og svo oft áður er það ungt fólk, m.a. háskólanemar, sem er fyrirferðarmest í mótmælum gegn stjórnvöldum. Hóparnir hafa m.a. komið fyrir vegatálmum og setið um háskólabyggingar.

Mótmælandi í borginni Masaya.
Mótmælandi í borginni Masaya. AFP

Frans páfi biðlaði til Níkaragvamanna í apríl að halda friðinn en síðan þá hefur ástandið versnað til muna. Íbúar landsins eru flestir kaþólskir og hafa nunnur m.a. mætt á minningarathafnir um fórnarlömb átakanna. Kirkjunnar menn hafa reynt að koma á sáttum en allar slíkar umleitanir hafa runnið út í sandinn. Um helgina hófust mótmælin af krafti á ný og þúsundir flykktust út á götur borga og bæja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert