Ekki til Íslands en í fangelsi

Tommy Robinson var á föstudag dæmdur í 13 mánaða fangelsi.
Tommy Robinson var á föstudag dæmdur í 13 mánaða fangelsi. AFP

Tommy Robinson, stofnandi English Defence League, samtök enskra þjóðernisöfgamanna, var á föstudaginn dæmdur í 13 mánaða fangelsi fyrir að lítilsvirða dómstól. Til stóð að hann kæmi til Íslands fyrir skömmu á vegum samtaka sem nefnast Vakur en ekkert varð af því.

Svo segir um ráðstefnuna á vef Vakurs: „Fjölmenningin í Evrópu: Vandamál og lausnir. Ráðstefna á Grand Hóteli Reykjavík, í salnum Gullteigi, fimmtudaginn 17. maí 2018, kl. 20-22. Breski aðgerðasinninn og rithöfundurinn Tommy Robinson flytur erindi um þær áskoranir og vandamál sem fjölmenningin í Evrópu hefur framkallað og hvernig greiða mætti úr málum öllum til hagsbóta.“

Tommy Robinson.
Tommy Robinson. AFP

Á vefnum vakur.is kemur fram að ekki sé gefið upp hverjir eru í stjórn, framkvæmdaráði, meðlimir eða styrktaraðilar Vakurs — Samtaka um evrópska menningu. Það er trúnaðarmál, segir á vefnum.

Á vef Blaðamannafélagsins kemur fram að siðanefnd félagsins hafi í gær vísað frá kæru Robinsons á hendur Sigmari Guðmundssyni fyrir viðtal sem hann tók í febrúar við Viðar Þorsteinsson heimspeking um Robinson og komu hans til landsins. Kærandi var Sigurfreyr Jónasson f.h. Tommy Robinson. Ástæðan fyrir frávísuninni er að kæran barst eftir að kærufrestur var liðinn.

Sigurfreyr kom meðal annars að komu Roberts Spencer hingað til lands en Vakur stóð að koma hans hingað. 

DV greindi frá því 17. maí að hætt hafi verið við ráðstefnuna þar sem Robinson kom ekki til landsins en Sigurfreyr hafði farið út á flugvöll að sækja hann. Fyrst hafði Robinson ekki komist vegna þess að það hafi sprungið dekk á bíl hans á leiðinni á flugvöllinn en ekki var gefin skýring á því hvers vegna hann kom ekki með fluginu sem hann átti síðar að koma með til landsins.

Tommy Robinson stofandi Pegida í Bretlandi.
Tommy Robinson stofandi Pegida í Bretlandi. Wikipedia/Targje

Samkvæmt frétt Guardian var greint frá dómi yfir Robinson í gær þegar leynd var  aflétt af málinu. Mjög mikil umræða hefur verið um dóm yfir honum á samfélagsmiðlum að undanförnu. Aðgerðarsinnar sem eru sömu skoðunar og Robinson höfðu þar gagnrýnt leyndina harðlega og vísa í málflutningi sínum til tjáningarfrelsisins.

Robinson var handtekinn á föstudag eftir að hafa birt á Facebook klukkustundar langt myndskeið sem tekið er fyrir utan dómshúsið í Leeds. Í myndskeiðinu tjáir hann sig um réttarhöldin sem þar stóðu yfir. Samkvæmt frétt Telegraph sést Robinson, sem er 35 ára gamall, í myndskeiðinu lesa upp nöfn sakborninga og birta andlit þeirra þegar þeir koma að réttarsalnum. 

Robinson, sem heitir réttu nafni Stephen Christopher Yaxley-Lennon,var dæmdur í tíu mánaða fangelsi á föstudaginn fyrir að lítilsvirða réttinn og þrjá mánuði til viðbótar fyrir að brjóta skilorð.

Myndskeiðið hefur fengið mikið áhorf eða yfir 250 þúsund talsins. Mikil reiði greip um sig meðal stuðningsmanna hans og mótmælt var í Whitehall á laugardag þar sem stuðningsmenn settu upp spjöld eins og #FreeTommy og gagnrýndu dómskerfið. 

Skjáskot af Change.org

Tæplega hálf milljón hefur skrifað undir bænaskjal á change.org þar sem farið var fram á að Robinson yrði látinn laus úr fangelsi þar sem dómurinn sé brot á tjáningarfrelsinu.

Í fyrra fékk Robinson skilorðsbundinn dóm fyrir að lítilsvirða réttinn þegar á nauðgunarréttarhöldum stóð í Canterbury en þar reyndi hann að taka upp myndskeið af sakborningum líkt og hann gerði á föstudaginn í Leeds.

Stuðningsmenn hans segja að með handtökunni sé verið að brjóta á tjáningarfrelsi hans. Á sunnudag endurtísti Donald Trump yngri, sonur Bandaríkjaforseta, færslu eins stuðningsmanna Robinsons og bætti við: „Ekki láta Bandaríkin fylgja í fótspor þeirra.“ 

Leiðtogi hollenskra þjóðernissinna, Geert Wilders birti myndskeið á Twitter sem var tekið upp fyrir utan breska sendiráðið í Haag þar sem hann segir fangelsun Robinsons sem hneyksli. Hann sakaði dómara um að vera múlbundna og að tjáningarfrelsið væri fótum troðið í Evrópu.

Frétt BBC

Lögreglan í Newport rannsakar meinta hatursglæpi í borginni en þar hefur verið kveikt í skóla og veggjakrot úðað á veggi með merki nasista. Við hlið veggjakrotsins eru skilaboð frá stuðningsmönnum Tommy Robinson. Brotin voru framin í gær og fyrradag.

Robinson var um tíma bannað að tjá sig á Twitter af hálfu stjórnenda samfélagsmiðilsins en hann hefur verið mjög duglegur að tjá skoðanir sínar þar undanfarna daga. 

Time birtir upplýsingar um Robinson á vef sínum í gær: Tommy Robinson er að sögn Time hægri aðgerðarssinni sem stofnaði samtökin English Defense League árið 2009 en samtökin hafa það að markmiði að berjast gegn íslamvæðingu í Bretlandi.

Hann er mjög virkur í samfélagi öfgahægri manna í heiminum og er einn af höfundum efnis á kanadíska vefnum Rebel Media. Eftir að hann var handtekinn birti leikarinn James Woods færslu á Twitter þar sem hann bað um upplýsingar varðandi handtöku Robinsons og Rosanne Barr svaraði: „Hann hefur reynt að greina frá því að þeir sem taka þátt í hópnauðgunum í Bretlandi njóti verndar. Hann var handtekinn sem er dauðadómur - gerðu það blandaðu þér í málið...“

Rosanne Barr hefur vakið athygli fyrir færslur á Twitter og hefur ABC sjónvarpsstöðin ákveðið að hætta framleiðslu sjónvarpsþátta hennar vegna rasisma á Twitter.

Mynd sem Tommy Robinson birtir á Twitter.
Mynd sem Tommy Robinson birtir á Twitter.

Stjórnarskrárbrot í Bandaríkjunum

Með því að birta streymi frá dómshúsinu braut Robinson lög sem gilda í Bretlandi um hvað er heimilt að segja frá opinberlega þegar réttarhöld standa yfir. Í þessu máli eru sakborningarnir 29 talsins en þeir eru ákærðir fyrir nauðgun og fíkniefnaviðskipti. Í Bandaríkjunum er bann við birtingu upplýsinga, sem Robinson var dæmdur fyrir, varið í fyrstu grein stjórnarskrárinnar.

Robinson hefur ítrekað verið dæmdur fyrir líkamsárásir og hótanir. Honum er meðal annars meinað að sækja knattspyrnuleiki vegna ofbeldis sem hann hefur gerst sekur um á knattspyrnuvöllum og í tengslum við íþróttina. Hann hefur jafnframt verið dæmdur fyrir að koma til Bandaríkjanna á skilríkjum annars manns og fjársvik í tengslum við fasteignalán. 

Á vef Sun er hægt að lesa nánar um sakaskrá Robinson

Í desember 2015 stofnaði hann síðan Pegida í Bretlandi en samtökin, sem fyrst urðu til í Austur-Þýskalandi þegar flóttamönnum fjölgaði í landinu, berjast gegn íslam í Evrópu. 

Ekkert varð af heimsókn Robinson til Íslands 17. maí en þann sama dag birtist aðsend grein eftir Ingibjörgu Gísladóttur, sem starfar við umönnun aldraða, um komu hans til landsins:

„Bretinn Tommy Robinson (Stephen Lennon) er þekktastur fyrir að hafa stofnað EDL í heimabæ sínum Luton, baráttusamtök gegn öfgamúslimum, en hryðjuverkasamtökin AlMuhjiroun höfðu náð góðri fótfestu þar. Kveikjan að stofnun EDL 2009 var að borgaryfirvöld og lögregla leyfðu íslamistum að mótmæla heimkomu hermanna úr stríðinu í Afganistan með niðrandi skiltum og formælingum, við litla hrifningu vina og ættingja hermannanna.

Næstu árin mótmæltu EDL áhrifum íslamista í hinum ýmsu borgum Bretlands, meðal annars voru samtökin á móti því að svokölluð „grooming gengi“ fengju óáreitt að tæla barnungar stúlkur skipulega í vændi með því að gera þær fyrst háðar áfengi og eiturlyfjum. Fyrir 30 árum stofnuðu síkhar samtök til að berjast gegn gengjunum því yfirvöld hunsuðu umkvartanir þeirra en það var ekki fyrr en 2011 eftir að Andrew Norfolk sem hafði áður fjallað um EDL skrifaði grein í The Times að menn neyddust til að viðurkenna tilvist gengjanna og telur Peter McLoughlin, höfundur Easy Meat, að 10.000 grunnskólastúlkur lendi í klóm þeirra á hverju ári. Í ljós hefur komið að 90% þeirra er hafa hlotið dóma eru múslimar – langflestir frá Pakistan en fórnarlömbin eru flest hvít eða síkhar.

Er Tommy/Stephen var að alast upp var Luton talin fyrirmynd annarra borga hvað friðsamleg samskipti kynþátta varðaði og átti hann marga svarta vini en bestu vinir hans voru múslimar. Þrátt fyrir að allir kynþættir væru velkomnir í EDL þá hafa fjölmiðlar alltaf útmálað samtökin sem rasísk öfgahægrisamtök og á endanum gafst Tommy upp á að halda rasistum utan samtakanna og hætti sem leiðtogi EDL 2013. Nú starfar hann sjálfstætt sem fréttaritari.

Tommy er sjálfur af innflytjendaættum því móðir hans er írsk og hann segir frá því í ævisögu sinni Enemy of the State(2015) að allir vinir sínir í barnæsku hafi verið synir innflytjenda. Fram að 13 ára aldri segist hann ekki hafa orðið var við átök kynþátta eða trúarhópa en eftir því sem innflytjendum frá Pakistan fjölgaði þá hafi samskiptin versnað og hann segir að óvildin hafi öll verið múslimanna megin í upphafi.

Tommy vill alla íslamistana (ekki múslimana) burt og með þeim sjaríalögin og barnavændissöluna. Hann og fleiri dreymir um gömlu Luton þar sem konur voru ekki áreittar úti á götu, hús fólks voru ekki grýtt til að flæma það úr hverfinu og menn áttu ekki á hættu að vera myrtir úti á götu fyrir að móðga meðlimi öfgahópanna.

Helsta vandamálið er kerfið (stjórnvöld, dómstólar og fjölmiðlar), segir Tommy, sem verndar múslimana í nafni pólitískrar rétthugsunar, fjölmenningar og sakir ótta við ásakanir um rasisma. Í bókinni segir hann frá því hvernig hann var ítrekað handtekinn, oftast fyrir tilbúnar sakir, og lýsir meðferð sem virðist skýrt brot á mannréttindum. Til dæmis var honum haldið í einangrun í meira en fimm mánuði eftir dóm sem hann fékk fyrir að fara til BNA á vegabréfi vinar síns og eftir að hafa fengið dóm fyrir skattalagabrot var Tommy settur beint í hámarksöryggisfangelsi með mönnum sem voru þar sumir fyrir að skipuleggja að drepa hann og telur hann að það hafi verið ætlun og von yfirvalda að hann yrði drepinn í fangelsisátökum.

Tommy nefnir í bókinni mörg dæmi um að tekið sé vægt á afbrotum múslima en að þeir sem gagnrýni þá fái að kenna á breskri „réttvísi“ af fullum þunga. Þegar hann klifraði 40 fet upp framhlið húss og stökk yfir girðingu sem lögreglan hafði sett upp til verndar salafistunum sem voru að brenna minningarblóm breskra hermanna á Vopnahlésdaginn með leyfi yfirvalda þá var hann sektaður um 350 pund fyrir að angra þá og síðast árið 2016 reyndi lögreglan að setja hann í fótboltabann fyrir að móðga ISIS með F**k ISIS fána!

Tommy er langt frá því að vera fullkominn. Er hann var yngri mátti hann teljast fótboltabulla og hann er hvatvís, orðhvatur, óútreiknanlegur og óhræddur við að ögra mönnum. Ég spái því að dómur sögunnar geri þjóðhetju úr honum. Hann hefur til að bera réttlætiskennd Hróa hattar og þrjósku og seiglu Bjarts í Sumarhúsum. Þrátt fyrir ofsóknir, hótanir og rógburð úr ýmsum áttum stendur hann enn keikur og berst fyrir rétti alþýðunnar til að lifa í friði í eigin landi, rétti til að upplifa sig ekki sem annars flokks borgara ofurseldan erlendri 7. aldar hugmyndafræði í nafni umburðarlyndis og útópískra hugmynda um fjölmenningu sem almenningur var aldrei spurður um hvort ætti að taka upp.

Stöðugt fleiri raddir heyrast sem hafa efasemdir um ágæti fjölmenningar og fullyrða sumir að múslimar sundri alls staðar slíkum samfélögum með því að líta niður á alla sem ekki eru múslimar jafnframt því að þeir telji sig ofsótta og undirokaða. Er hægt að endurvekja gömlu Luton með því að taka hart á íslamistunum, loka moskum salafista og deobandi hópa og íslömsku skólunum, setja sjaríadómarana af og fara að láta bresk lög gilda fyrir alla?“ segir í grein Ingibjargar Gísladóttur í Morgunblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert