Fannst 30 árum eftir að hann hvarf

Götumynd frá Afganistan. Maðurinn var talinn af eftir að flugvél …
Götumynd frá Afganistan. Maðurinn var talinn af eftir að flugvél hans var skotin niður yfir Afganistan 1987, hann er hins vegar enn á lífi og vill fá að snúa heim til Rússlands. AFP

Rússneskur flugmaður fannst nýlega þremur áratugum eftir að hann hvarf í Afganistan. Segir hópur fyrrverandi hermanna að maðurinn, sem var í flughernum, vilji fá að snúa aftur til Rússlands, en flugvél hans var skotinn niður er hann hvarf og var hann talinn látinn.

„Hann er enn á lífi. Það er ótrúlegt og núna þarf hann á aðstoð að halda,“ segir formaður félags fallhlífahermanna, Valery Vostrotin í samtali við rússnesku RIA Novoasti fréttastofuna.

Flugvél hermannsins var skotin niður árið 1987 og hefur Reuters fréttastofan eftir Vyacheslav Kalinin, formanni samtaka uppgjafahermanna, að hann kunni að vera í Pakistan en þar voru Afganir með búðir fyrir stríðsfanga.

RIA Novosti segir 125 sovéskar flugvélar hafa verið skotnar niður í stríðinu í Afganistan á árabilinu 1979-1989, þegar sovéskar herdeildir drógu sig til baka og að um 300 hermanna hafi þá verið saknað. 30 þeirra hafi fundist síðan þá og hafi þeir flestir snúið aftur til heimalands síns.

Dagblaðið Kommersant segir bara einn sovéskan flugmann hafa verið skotinn niður árið 1987 og hefur nafngreint manninn sem Sergei Pantelyuk. Segir yfirmaður uppgjafahermanna í heimabyggð Pantelyuk að móðir hans og systir sé enn á lífi og þá hafði dagblaðið Komsomolskaya Pravda uppi á 31 árs gamalli dóttur Pantelyuk, sem fæddist nokkrum mánuðum áður en faðir hennar hvarf.

Þingmaðurinn Frants Klintsevich sagði RIA Novosti að mál flugmannsins veri fjarri því að vera einsdæmi. Hann hafi hitt sovéskan hermann í Afganistan fyrir nokkrum árum sem neitaði að gefa upp nafn sitt og sem átti erfitt með að tala rússnesku. Sagði sá við hann að það væri of seint fyrir sig að snúa til baka núna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert