Nakin listakona hneykslar Lofoten

Nakinn hádegisverður. Listakonan Stina Therese Lorås kallar ekki allt ömmu …
Nakinn hádegisverður. Listakonan Stina Therese Lorås kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að gjörningum en þessi er þó engu að síður byggður á sögum áttræðrar samískrar ömmu hennar. Ljósmynd/Sámi Lávdi

„Þar sem ég lá á borðinu mættu mér ýmis viðbrögð. Þau spönnuðu allt frá óbeit og yfir í að fólk lést hreinlega ekki taka eftir mér,“ segir framúrstefnulistakonan Stina Therese Lorås í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Umræðuefnið er vægast sagt umdeildur gjörningur Lorås í fiskiparadísinni Lofoten í Norður-Noregi á nýafstaðinni listasýningu.

Lorås, sem er sviðslistamaður, dansari og leikstjóri af samískum ættum, menntuð í leikhúsfræðum frá Háskólanum í Agder, lagði gjörning sinn „Pop-up-gilde“ fram á listasýningunni Stamsund internasjonale teaterfestival í Lofoten um mánaðamótin. Fólst gjörningurinn í því að Lorås lá kviknakin á borði, þakin ýmsum matvælum, og var ætlun hennar að taka á sig gervi „mennsks matartrogs“ (n. menneskelig matfat). Hafði hún, auk þess að liggja undir öllum matnum, fengið sér sjö varanleg húðflúr, byggð á sögulegum teikningum af samatrommum, hefðbundnu hljóðfæri samíska þjóðflokksins, til að auka áhrif gjörningsins.

Kaffikannan var á sínum stað eftir hlaðborðið. Myndirnar tók samíski …
Kaffikannan var á sínum stað eftir hlaðborðið. Myndirnar tók samíski ljósmyndarinn Sámi Lávdi og eru þær birtar hér með góðfúslegu leyfi norska ríkisútvarpsins NRK. Ljóst er að myndir samískra ljósmyndara eru að minnsta kosti ekki daglegt brauð á fréttavef Morgunblaðsins. Ljósmynd/Sámi Lávdi

Lorås segir kveikjuna að verkinu hafa verið frásögn 80 ára gamallar samískrar ömmu hennar, sem kemur frá Kvalsund í Finnmörku, nyrsta fylki Noregs, af lífsbaráttu sama til forna en samar hafa eigið þing og sjálfsstjórnarsvæði í nyrstu fylkjum Noregs og er samíska auk þess opinbert tungumál í Noregi við hlið nýnorsku og bókmáls.

Amman vissi ekki af nektinni

„Á þessu eru margar hliðar [gjörningnum] en hann fjallar um berskjöldunina og það sem maður skynjar við að vera nakin(n). Allir mega standa þarna og íhuga, mynda sér skoðanir og gagnrýna, til dæmis hvort ég sé nógu samísk,“ segir Lorås sem er bara sami að einum fjórða. Henni er þó nokk sama um það og heldur áfram, stolt: „Þetta var alveg magnað. Allar hugsanirnar sem fara gegnum höfuð manns, spurningar um hvers vegna ég sé að standa í þessu og svo framvegis. Þetta var strembið meðan á því stóð en ég stend við framkvæmd mína,“ segir hún og bætir því við að amma hennar viti ekki enn að hún hafi komið nakin fram. „En þegar hún fréttir af því vona ég að hún elski mig enn þá,“ segir hún hlæjandi.

Lorås segir frá því að einhverjir gestir á sýningunni hafi brostið í grát og haldið því fram, áður en þeir hlupu á dyr, að gjörningur hennar væri skopstæling á kúgun kvenna. „Ég fékk þá fram það sem ég vildi, að fólk ræddi hlutina,“ segir listakonan í glettnum tón við NRK.

Staðardagblaðið Lofotposten hefur einnig fjallað um Stamsund-hátíðina auk þess sem nálgast má upplýsingar um hana á heimasíðu hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert