Aðskilnaður getur valdið óbætanlegu tjóni

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra'ad Al Hussein, hvetur bandarísk yfirvöld til þess að hætta að skilja börn að frá foreldrum sínum á landamærum og segir stefnu þeirra óforsvaranlega. Hann segir að það skipti engu hvaða ríki eigi í hlut, aðgerðir sem þessar eru óforsvaranalegar hvar sem er. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Zeid þegar hann setti fund Mannréttindaráðs SÞ í Genf í Sviss í morgun.

Zeid vísaði í samtök bandarískra barnalækna, American Association of Pediatrics, sem segja að misnotkun bandarískra stjórnvalda á börnum geti valdið þeim óbætanlegum skaða sem aldrei verði bættur. Bandaríkin eru eina ríki Sameinuðu þjóðanna sem ekki hefur fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en hann er útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Fullgilding felur í sér að ríki skuldbinda sig til þess að tryggja og virða þau réttindi barna sem fram koma í sáttmálanum. 

Þingmenn demókrata hétu því í gær að binda endi á aðskilnað flóttabarna frá foreldrum sínum í gær og forsetafrú Bandaríkjanna, Melania Trump, segir að binda eigi endi á aðskilnað foreldra og barna á landamærum Bandaríkjanna.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ber ábyrgð á þessari stefnu sem hefur verið harðlega gagnrýnd undanfarnar vikur. Forsetinn hefur ekki tjáð sig beint um ummæli eiginkonunnar á Twitter en skrifaði þetta í gærkvöldi: 

Undanfarnar sex vikur hafa um 2.000 börn verið skilin frá fjölskyldum sínum er þau hafa reynt að komast frá Mexíkó yfir landamærin til Bandaríkjanna. Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur gert breytingu á meðhöndlun ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna og lætur nú setja þá sem fara yfir landamærin án leyfis í gæsluvarðhald svo hægt sé að rétta yfir þeim. Ef börn eru í för með þeim eru þau skilin frá fjölskyldum sínum og sett í umsjá bandaríska heilbrigðisráðuneytisins.

„Þeir kalla þetta ekkert umburðarlyndi (zero tolerance) en réttara væri að tala um engin mannúð og það eru engin rök fyrir þessari stefnu,“ segir Jeff Merkley. öldungadeildarþingmaður frá Oregon, eftir að hafa farið fyrir hópi þingmanna demókrata að landamærum Mexíkó í gær. 

Hann segir það algjörlega óásættanlegt og þar skipti engu hvaða siðferðislegu gildi eða trúarbrögð eigi í hlut að skaða börn í þeim tilgangi að senda fullorðnu fólki pólitísk skilaboð.

Eftir að hafa skoðað aðstæður sem um 1.500 flóttabörn búa við í húsnæði, sem áður hýsti Walmart verslun, við landamærin sagði Merkley að meðferðin á börnum þar sé illmennska. 

Trump segir að hann vilji að hætt verði að skilja börn að frá foreldrum sínum og sakar demókrata um að bera ábyrgðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert