Bandaríkin segja sig úr Mannréttindaráði SÞ

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, mun tilkynna um …
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, mun tilkynna um úrsögn Bandaríkjanna úr Mannréttindaráði SÞ síðar í dag. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum munu tilkynna um úrsögn ríkisins úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna síðar í dag. Bandaríkin ásaka aðildarríki ráðsins um rótgróna fordóma í garð Ísraelsríkis.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, munu að öllum líkindum tilkynna um úrsögnina í utanríkisráðuneytinu í Washington klukkan fimm síðdegis að staðartíma, eða klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma.

Ráðið var stofnað árið 2006 á grundvelli Genfar-sáttmálans og eiga 47 ríki fulltrúa í ráðinu. Tilgangur ráðsins er að fjalla um og rannsaka mannréttindabrot. Ríkin eru kosin af allsherjarþingi SÞ til þriggja ára setu í senn. Bandaríkin hafa átt sæti í ráðinu í eitt og hálft ár og hefur Haley ítrekað hótað að sniðganga Genfar-sáttmálann.

Ljóst er að með úrsögninni mun Ísrael missa sinn helsta bandamann í ráðinu. Mannréttindabrot Ísraels eru til umfjöllunar á fundum ráðsins hverju sinni og eru ávallt númer sjö á dagskrá fundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert