Afstaða til flóttafólks gæti ráðið örlögum ESB

Angela Merkel kanslari á þýska þinginu í dag.
Angela Merkel kanslari á þýska þinginu í dag. AFP

 Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að flóttamannavandinn gæti ráðið örlögum Evrópu. Þessi orð lét Merkel falla á þinginu, nokkrum klukkustundum áður en fundur leiðtoga Evrópusambandsins hefst í Brussel. Talið er að hart verði tekist á um hvaða leiðir skuli fara til að mæta vandanum á fundinum. 

„Evrópa stendur frammi fyrir mörgum áskorunum en fólksflutningar gætu ráðið örlögum álfunnar,“ sagði hún á þýska þinginu í dag. Sagði hún að sú leið sem ESB ákveður að fara gæti ráðið úrslitum um hvernig aðrar þjóðir líta á sambandið sem verjanda þeirra gilda sem það stendur fyrir.

Flýja örbirgð og átök

Meginviðfangsefni fundarins í Brussel í dag er hvernig eigi að leysa úr málum er tengjast stöðugum straumi fólks til Evrópu, aðallega frá Afríku. Flóttafólkið hættir lífi sínu með því að fara á illa útbúnum bátum smyglara í leit að betri lífskjörum. Í hópnum er einnig fólk sem er að flýja átökin í Sýrlandi og frá fleiri stríðshrjáðum löndum.

Flóttamannavandinn nú er ekki af sömu stærðargráðu og hann var árið 2015 er þúsundir komu daglega að ströndum grísku eyjanna. Framkvæmdastjórn ESB segir að dregið hafi úr komum ólöglegra innflytjenda til álfunnar um 98% frá því sem mest lét í október árið 2015.

Fengu hvergi að koma til hafnar

En í þessum mánuði hafa komið upp flókin deilumál, m.a. um hvar skip sem björguðu flóttafólki úr sjávarháska á Miðjarðarhafi, gátu komið að landi. Þeim var m.a. bannað að koma til hafnar á Ítalíu. Þar með var málið komið aftur í sviðsljósið en á öðrum forsendum en áður. Eitt skipanna, Lifeline, fékk aðeins að koma að höfn á Möltu eftir langar viðræður milli nokkurra ESB-ríkja. Ákváðu ríkin að skipta flóttafólkinu á milli sín svo að Malta þyrfti ekki eitt og sér að fást við verkefnið.

Samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni eiga hælisleitendur að dvelja í því ESB-landi sem þeir koma fyrst til. En ljóst er að miklir annmarkar eru á þeirri tilhögun þar sem langflestir þeirra koma fyrst á land í Grikklandi sem hefur lengi krafið önnur ríki sambandsins um að koma til aðstoðar.

Ríkisstjórnin klofin í afstöðu

Í næsta mánuði munu Austurríkismenn taka við forystu í framkvæmdastjórn ESB en ríkisstjórnin þar í landi hefur viljað taka mun harðar á innflytjendamálum en nágrannaþjóðir sínar. Sömu sögu er reyndar að segja um stjórnvöld í Tékklandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Póllandi. Stjórnvöld þessara landa hafa hafnað hugmyndum ESB um að deila byrðunum með Grikklandi og Ítalíu og skipta á milli sín um 160 þúsund flóttamönnum.

Kastljósið mun beinast að Merkel á fundinum í dag en samstarfsflokkur hennar í ríkisstjórn hefur hótað því að hefta för þess flóttafólks inn í landið sem hefur áður haft viðkomu í öðru landi ESB. Það gengur gegn opinberri stefnu Merkel í málefnum innflytjenda. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert