Trump biður um meiri olíu

Donald Trump og Salman konungur á fundi á síðasta ári.
Donald Trump og Salman konungur á fundi á síðasta ári. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist í dag hafa beðið Salman bin Abdulaziz Al Saud, konung Sádi-Arabíu, um að auka olíuframleiðslu um allt að tvær milljónir tunna þar sem verðið á olíu sé of hátt. Trump segir Salman hafa samþykkt beiðni sína. Þetta kemur fram í twitterfærslu frá forsetanum.

Forseti Bandaríkjanna segir einnig að hann hafi útskýrt fyrir Salman að óstöðugleiki og ófyrirsjáanleiki sem Venesúela og Íran valda vandamálum og háu olíuverði.

CNN Money segir frá því að olíuverð náði nýju hámarki á fimmtudag síðastliðinn þegar verð hráolíu hækkaði í 74 bandaríkjadali á tunnu, hæsta verð síðan 2014. Talið er að 13% hækkun heimsmarkaðsverðs undanfarið sé að rekja til óstöðugleika á alþjóðlegum olíumarkaði.

Talið er hækkun verðs síðustu daga sé hægt að rekja meðal annars til þess að truflanir urðu á rafmagnsdreifingu í Kanada sem orsakaði tafir í afhendingu olíu til Bandaríkjanna og óstöðugleika vegna aðgerða Trumps gegn Íran.

Sádar lýstu því yfir fyrr í vikunni í kjölfar fundar OPEC að þeir hyggjast auka framleiðslu, en efasemdir eru um að sú framleiðsluaukning verði jafn mikil og óskir Trumps. Einhverjar líkur eru þó á að Sádi-Arabía muni setja nýtt met í olíuframleiðslu, eða 11 milljónir tunna á dag í júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert