Gagnrýnd fyrir gíraffaveiðar

Tess Thompson Talley ásamt fengnum.
Tess Thompson Talley ásamt fengnum. Ljósmynd/Af Twitter

Bandarísk kona hefur sætt harðri gagnrýni eftir að ljósmyndir þar sem hún stillir sér upp hjá dauðum gíraffa fóru í dreifingu á netinu. Um er að ræða sjaldgæfan svartan gíraffa sem konan skaut til bana í Suður-Afríku.

BBC greinir frá því að konan heiti Tess Thompson Talley, en það var Twitter-aðgangurinn AfricaDigest sem deildi myndunum og kallaði hana „hvítan bandarískan villimann“. Þeim hefur svo verið deilt áfram mörg þúsund sinnum og fordæmir fólk gjörðir konunnar.

Talley gerði tilraun til þess að verja veiðar sína með tölvupósti sem miðillinn Fox News vitnar í. Þar segir hún að minjaveiðar (e. trophy hunting) hjálpi til við viðhald dýrategunda. Hún sagði það slíkum veiðum að þakka, að hluta til, að þessari undirtegund gíraffa færi fjölgandi vegna verndar sem væri fjármögnuð með veiðunum.

Hún veiddi gíraffann á síðasta ári og fékk af honum um 907 kíló af kjöti. Hún hafði áður deilt árangrinum á Facebook-síðu sinni en færslunni hefur nú verið eytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert