Gæti setið í hæstarétti í áratugi

Brett Kavanaugh.
Brett Kavanaugh. AFP

Nýr dómari við hæstarétt Bandaríkjanna, Brett Kavanaugh, er 53 ára gamall og þar sem hæstaréttardómarar í Bandaríkjunum geta gegnt embætti til æviloka þannig að líklegt er að hann eigi eftir að gegna embætti áratugum saman. 

Kavanaugh hefur frá árinu 2006 verið dómari við áfrýjunardómstól við Columbia Circuit en var áður aðstoðarmaður George W Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húisnu. Eins starfaði hann fyrir sjálfstæða rannsókn Kenneth Starr á fyrrverandi forseta, Bill Clinton á síðustu öld.

Dómarar við hæstarétt Bandaríkjanna taka ákvarðarnir í lykilmálum, svo sem varðandi fóstureyðingar, byssulöggjöf og innflytjendur.

Kavanaugh hefur ekki upplýst opinberlega um andstöðu sína við niðurstöðu hæstaréttar í máli Roe gegn Wade árið 1973 en með dómi hæstaréttar varð einstaka ríkjum óheimilt að takmarka aðgengi kvenna að fóstureyðingum á fyrstu 12 vikum meðgöngu. Dómstóllinn varð að vega og meta rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama annars vegar og hagsmuni hins opinbera af því að setja fóstureyðingum skorður hins vegar. Dómurinn klauf bandarísku þjóðina og hefur sætt linnulausum atlögum. Hann hefur hins vegar farið nálægt því. Til að mynda greiddi Kavanaugh sératkvæði í fyrra þegar meirihluti dómara við Circuit dómstólinn heimiluðu unglingsstúlku, sem ekki var með heimild til dvalar í Bandaríkjunum og var í varðhaldi, að fara í fóstureyðingu. Hann taldi að réttur hennar til fóstureyðingar byggði á grundvallarákvæði stjórnarskrárinnar sem ekki væri rétt. Hins vegar yrði dómstóllinn að viðurkenna Roe gegn Wade og önnur sambærileg mál sem fordæmisgefandi dóma og þeim yrði að fylgja.

Kavanaugh er einnig talinn andsnúinn því að heimila sakamálarannsókn gegn sitjandi forseta og ef sérstök rannsókn á tengslum forsetaframboðs Trump og Rússa fari fyrir hæstarétt þá muni hann setja sig upp á móti slíkri rannsókn.

Hann styður skilning á annarri grein stjórnarskrárinnar sem snýr að byssueign. Hann greiddi atkvæði gegn ákvörðun áfrýjunardómstólsins um að leggja bann við notkun flestra gerða hálf-sjálfvirkra riffla í Columbia. Taldi hann að sama ætti að gilda um hálf-sjálfvirka riffla og skammbyssur sem yfirleitt eru sjálfvirkar eða hálf-sjálfvirkar.

Væntanlega eru umhverfssinnar lítt hrifnir af vali Trump en Kavanaugh hefur ekki farið leynt með andstöðu sína við málatilbúnað þeirra og ítrekað verið á móti þegar tekist er á um reglugerðir sem settar voru í forsetatíða Barack Obama varðandi gróðurhúsaáhrif og loftslagsmál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert