Bakveikur - ekki fullur

Jean-Claude Juncker fagnar komu Emmanuel Macron til leiðtogafundarins í vikunni.
Jean-Claude Juncker fagnar komu Emmanuel Macron til leiðtogafundarins í vikunni. AFP

Evrópusambandið segir að forseti framkvæmdarstjórnar þess, Jean-Claude Juncker, hafi hrasað vegna bakverkja, ekki áfengisneyslu, á leiðtogafundi NATO á miðvikudag. Segir sambandið það móðgun að gefa í skyn að Juncker hafi verið drukkinn.

Hinn 63 ára gamli Juncker var óstöðugur á fótunum við hátíðarkvöldverð leiðtogafundarins í Brussel á miðvikudag. Að lokum settist hann í hjólastól. 

Forsætisráðherrar Hollands og Portúgals þurftu að styðja hann á fætur nokkrum sinnum og fylgdust m.a. Donald Trump Bandaríkjaforseti og Theresa May forsætisráðherra Bretlands með. Þá átti hann einnig erfitt með gang við ýmis önnur tækifæri á leiðtogafundinum.

Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi í morgun að Juncker hefði fengið tak í bakið og það skýrði það hversu óstöðugur hann var á fótunum. Sagði Schinas að Juncker hefði sjálfur sagt frá þessum veikindum sínum opinberlega og að hann ætti þeirra vegna erfitt með gang. „Það var það sem gerðist á miðvikudagskvöld,“ sagði talsmaðurinn. „Forsetinn vill opinberlega þakka forsætisráðherrunum Mark Rutte og Antonio Costa fyrir að aðstoða sig á þessu þjáningarfulla augnabliki. Hann tekur nú lyf og líður betur.“

Sögusagnir höfðu farið á kreik um að Juncker hefði verið drukkinn en talsmenn hans hafa alfarið neitað því. „Mér finnst það meira en smekklaust að sumir fjölmiðlar reyni að búa til móðgandi fyrirsagnir og gera þannig lítið úr þjáningum hans. Mér finnst þetta ljótt og óréttlátt,“ sagði Schinas.

Þá var hann spurður hvort að Juncker hefði ef til vill drukkið ofan í verkjarlyfin en því neitaði talsmaðurinn einnig. „Nei, það gerði hann ekki, að minnsta kosti veit ég ekki til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert