Hætti að leita uppi fallegar konur í stúkunni

FIFA hefur beint því til sjónvarpsstöðva að hætta að leita …
FIFA hefur beint því til sjónvarpsstöðva að hætta að leita uppi fallegar konur í stúkum HM. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) hefur einsett sér að beita sér gegn því að sjónvarpsstöðvar leiti uppi „kynþokkafullar konur“ í áhorfendastúkum í tilraun til þess að takast á við kynjamismunun. Independent greinir frá því að þrátt fyrir að áhyggjur af hómófóbíu og kynþáttafordómum hafi að mestu verið óþarfar fyrir Heimsmeistaramótið í Rússlandi hafi kynjamisrétti látið á sér kræla.

Samtökin Fare Network sem beita sér gegn hvers konar misnotkun hafa unnið náið með FIFA við að fylgjast með hegðun í kring um leiki mótsins. Forsvarsmaður samtakanna, Piara Powar, segir að kynjamisrétti sé stærsta vandamálið á HM í Rússlandi.

300 konur áreittar af stuðningsmönnum

Á blaðamannafundi fyrir undanúrslitaleik Englands og Króatíu sagði Powar að útsendarar samtakanna hafi skráð niður 30 tilfelli þar sem konur, flestar rússneskar, hafi verið áreittar af karlkyns stuðningsmönnum á götum úti. Hann telur líklegt að raunverulegur fjöldi slíkra atvika í kring um mótið sé tífalt meiri.

Fallegar konur eru gjarnan leitaðar uppi í stúkunni.
Fallegar konur eru gjarnan leitaðar uppi í stúkunni. AFP

Þá nefndi hann að nokkrar fjölmiðlakonur hefðu orðið fyrir áreitni í útsendingu, þar sem þær voru kysstar eða rifið í þær. Aðspurður hvað FIFA gæti gert til að takast á við mál sem þessi sagði Federico Addiechi, forsvarsmaður jafnréttismála hjá FIFA, að bera mætti kennsl á stuðningsmennina og svifta þá aðgangspassa sínum, svokölluðu Fan ID.

Verður hluti af formlegri stefnu FIFA

Þá sagði hann einnig að FIFA hefði þegar beðið rússneskar sjónvarpsstöðvar að hætta að einblína á „kynþokkafullar konur“ í áhorfendastúkum leikvanganna, auk þess sem þeir hafa fylgst með erlendum kollegum þeirra sem sýna frá mótinu.

Aðspurður hvort þetta væri nú hluti af formlegri stefnu FIFA sagði Addiechi að svo yrði klárlega í framtíðinni og að þetta væri eðlileg þróun mála.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert