Ísjakinn færist fjær þorpinu

Ísjakinn hefur færst 400-600 metra í norðurátt síðan þessi mynd …
Ísjakinn hefur færst 400-600 metra í norðurátt síðan þessi mynd var tekin í gær. Enn er ástandið þó metið hættulegt. AFP

Hagstæðir vindar og hafstraumar hafa leitt til þess að borgarísjakinn risavaxni, sem ógnað hefur íbúum þorpsins Innaarsuit á Grænlandi undanfarna daga, hefur nú færst fjær þorpinu. Þetta kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsins, DR.

Þar er haft eftir Jakob Rousøe hjá norðurslóðadeild danska hersins, Arktisk Kommando, að vonir eftirlitsaðila hafi ræst, öflugur vindur úr suðri og hagstæðir hafstraumar hafi flutt borgarísjakann um 400-600 metra í norðurátt.

Á fimmtudag var ísjakinn einungis í um hundrað metra fjarlægð frá þorpinu og óttast var að hann gæti valdið flóðbylgju sem ógnað gæti byggðinni. Hluta íbúa við ströndina var í gær gert að yfirgefa heimili sín í varúðarskyni.

Þeim sem búa á rýmingarsvæðunum hefur ekki verið leyft að snúa aftur og Rousøe segir að enn ríki hættuástand þrátt fyrir að ísjakinn hafi færst fjær þorpinu.

„Þetta eru jákvæðar fréttir, að ísjakinn hafi flust í norðurátt, en þetta er risastór ísjaki og því getum við ekki verið viss um að hættan sé afstaðin,“ segir Rousøe.

Veður og vindar næstu daga munu ráða öllu um það hvort ísjakinn færist fjær Innaarsuit og hægt verði að aflétta rýmingunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert