Misstu leyfið fyrir að veipa í vélinni

Flugvélar Air China. Vélin var á leiðinni frá Hong Kong …
Flugvélar Air China. Vélin var á leiðinni frá Hong Kong til Dalian er atvikið átti sér stað. AFP

Kínversk yfirvöld hafa hafa svipt tvo flugmenn Air China-flugfélagsins flugleyfinu eftir að annar þeirra veipaði í flugstjórnarklefanum með þeim afleiðingum að nauðlenda þurfti vélinni.

Farþegavélin var á leiðinni frá Hong Kong til Dalian þegar hún þurfti skyndilega að lækka flughæð sína um 21.000 fet (6.500 m) er loftþrýstingur féll skyndilega í farþegarýminu. Rannsakendur segja ástæðu þessarar skyndilegu breytingar á loftþrýstingi vera þá að annar flugmannanna hafði reykt rafsígarettu í stjórnklefanum.

Kínversk flugstjórnaryfirvöld sektuðu flugfélagið í kjölfarið og fækkuðu ferðum þess með Boeing 737-farþegaþotum um 10%. Auk þess var flugfélaginu gert að sæta þriggja mánaða öryggisathugun, að því er BBC greinir frá.

Atburðurinn átti sér stað þegar sá flugmaður sem var að veipa reyndi að slökkva á viftu til að koma í veg fyrir að reykurinn bærist inn í farþegarýmið. Fyrir mistök slökkti hann hins vegar á loftkælingunni sem olli því að súrefnismagn féll. Neyðarkerfið fór þegar í stað í gang og súrefnisgrímur féllu niður í farþegarýminu. Vélin var þá einnig neydd til að lækka flugið hratt, en falli þrýstingur í farþegarými verða flugmenn að lækka flughæð til að tryggja öryggi þeirra sem eru um borð.

Er áhöfnin sá að ástæða atviksins var sú að slökkt hafði verið á loftkælingunni var kveikt á henni á ný og flughæð hækkuð á ný. Vélin lauk síðan ferð sinni og lenti í Dalian án frekari uppákoma.

Þriðji flugmaðurinn sem var um borð og sem ekki átti þátt í atvikinu, missti flugleyfið í hálft ár og er í tveggja ára banni hjá Air China að því er kínverska dagblaðið South China Morning post greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert