Neitaði að setjast niður í flugvél

Sænsk baráttukona og háskólanemi, Elin Ersson, kom í veg fyrir að afganskur hælisleitandi yrði sendur aftur til Afganistan frá Svíþjóð með því að neita að setjast niður í flugvélinni sem átti að flytja manninn.

Ersson hafði vísvitandi bókað sama flug og maðurinn átti að fara með og neitaði svo að setjast niður fyrr en maðurinn yrði færður úr vélinni. Atvikið átti sér stað á mánudag.

Hún sýndi frá aðgerðum sínum á Facebook-síðu sinni þar sem hún á í nokkuð hörðum orðaskiptum við áhöfn vélarinnar og aðra farþega. Fjölmargir hrósuðu Ersson í ummælum við Facebook-myndskeiðið fyrir uppátæki sitt. Myndskeiðið hefur nú fengið tæplega tvær milljónir áhorfa.

Ersson segist í myndskeiðinu vera ósammála þeirri stefnu sænskra stjórnvalda að Afganistan sé öruggt land og að þeir hælisleitendur sem ekki fá hæli séu sendir aftur, oft með valdi. Hún segir að í Afganistan muni maðurinn „líkast til vera drepinn“ og útskýrir að hún sé að gera það sem hún geti til að bjarga mannslífi.

„Svo lengi sem það er manneskja standandi má flugmaðurinn ekki taka af stað. Það eina sem ég vil gera er að stöðva þessa brottvísun og þá mun ég fylgja reglunum,“ sagði hún. Þá segir hún að fleiri farþegar hafi einnig staðið upp henni til samstöðu.

Á endanum var henni og afganska manninum, 52 ára, fylgt út úr vélinni. Manninum hafði verið fylgt um borð af sænskum lögregluyfirvöldum. Samkvæmt BBC mun manninum líkast til vera vikið úr landi síðar og gæti Ersson átt von á ákæru fyrir að hafa ekki fylgt fyrirmælum flugstjórans.

Myndskeið af atvikinu má sjá hér að neðan. 

Brottvísanir flóttamanna í Evrópu hafa verið afar umdeildar upp á …
Brottvísanir flóttamanna í Evrópu hafa verið afar umdeildar upp á síðkastið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert