Par í haldi vegna barnslíksins í skóginum

Breska lögreglan að störfum.
Breska lögreglan að störfum. AFP

Karl og kona eru í haldi lögreglunnar í Bretlandi eftir að lík ungbarns fannst í skóglendi í Heywood í nágrenni Manchester. 

Nakið lík nýfæddrar stúlku, sem lögreglumenn kalla Pearl, fannst 4. apríl. Það var maður á göngu með hundinn sinn sem kom auga á það í skóginum.

Lögreglan hefur nú handtekið 48 ára gamlan karlmann og 33 ára gamla konu. Eru þau grunuð um morð, að hafa leynt fæðingu barns og fyrir að koma í veg fyrir greftrun þess lögum samkvæmt.

Réttarmeinafræðingar komust að þeirri niðurstöðu að stúlkan hefði verið með hjartagalla og að tvö rifbein voru ekki til staðar í líkama hennar. 

Erfðafræðileg rannsókn leiddi lögregluna á spor parsins sem nú hefur verið handtekið. 

Litla stúlkan fannst látin í skóglendinu að kvöldi dags. Hún var nakin, ekki með teppi yfir sér og ekki með bleiu, segir í frétt Sky um málið.

Lögreglumaður sem kom að rannsókn málsins segir í samtali við Sky að málið sé harmleikur frá upphafi til enda og fyrir alla þá sem að málinu komi. „Við ætlum okkur að komast að sannleikanum fyrir þessa litlu stúlku.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert