Ekki vaxið hraðar í fjögur ár

Donald Trump lofaði efnahagsvöxtinn fyrir utan Hvíta húsið í dag.
Donald Trump lofaði efnahagsvöxtinn fyrir utan Hvíta húsið í dag. AFP

Efnahagur Bandaríkjanna óx um 4,1% á öðrum fjórðungi þessa árs, endurreiknað miðað við ársgrundvöll, en hann hefur ekki vaxið hraðar í nærri fjögur ár.

Vöxturinn var knúinn áfram af mikilli einkaneyslu, fjárfestingum í viðskiptum og skyndilegri aukningu í útflutningi, þar sem fyrirtæki flýttu sér til að forðast nýja viðskiptatolla.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir vöxtinn stórkostlegan og að hann sé til sönnunar um að stefna ríkisstjórnarinnar sé að virka.

Sérfræðingar vara þó margir við því að vöxturinn geti hjaðnað á komandi mánuðum, samkvæmt umfjöllun BBC.

„Í einni línu: Lítur frábærlega út; mun ekki endast,“ skrifar Ian Shepherdson, yfirhagfræðingur hjá ráðgjafarstofunni Pantheon Macroeconomics.

Meðalvöxtur bandaríska efnahagsins hefur numið 2,2% á ársgrundvelli frá 2012 til 2017. Trump hefur sagt vöxtinn munu aukast í 3% eða meira vegna stefnu sinnar, sem felur í sér skattalækkanir, aukin fjárútlát ríkisins og endurskoðun á viðskiptasamböndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert