Líkamsleifarnar líklega af Bandaríkjamönnum

Heiðursvörður fylgdi líkkistum hermannanna 55.
Heiðursvörður fylgdi líkkistum hermannanna 55. AFP

Rannsókn réttarmeinafræðinga á líkamsleifum sem stjórnvöld í Norður-Kóreu afhentu bandarískum yfirvöldum í síðasta mánuði bendir til þess að líkamsleifarnar séu „líklega af Bandaríkjamönnum“.

Norður-Kóreumenn sendu 55 kassa með líkamsleifum jafnmargra einstaklinga til Bandaríkjanna og eiga þau að vera af bandarískum hermönnum sem féllu í Kóreustríðinu. Einungis eitt merkispjald líkt og þau sem hermenn bera fylgdi hins vegar með kössunum.

Líkamsleifarnar voru sendar í gegnum Suður-Kóreu til Havaí þar sem þær verða rannsakaðar ítarlega, en frumrannsókn bendir til þess að þær séu af Bandaríkjamönnum.

BBC segir norðurkóresk yfirvöld áður hafa skilað líkamsleifum sem áttu að vera af erlendum  hermönnum, en reyndust svo ranglega taldar slíkar.

„Það er engin ástæða á þessum tímapunkti til að efast um að þær séu ekki frá tímum Kóreustríðsins,“ sagði réttarmeinafræðingurinn John Byrd.

Sagði hann yfirvöld hafa sett sig í samband við fjölskyldu hermannsins sem átti merkið, en of snemmt væri að staðfesta að borin hefðu verið kennsl á eitthvert líkanna.

Árið 2011 afhentu norðurkóresk yfirvöld breskum það sem áttu að vera líkamsleifar bresks flughermanns, en reyndust svo vera leifar af dauðu dýri.

Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar gefið í skyn að þau telji hug fylgja máli afhendingunni nú. „Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við fund líkamsleifa í Norður-Kóreu og erum bjartsýn,“ sagði Jon Kreitz, aðstoðarforstjóri réttarmeinastofnunar hersins á Havaí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert